150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

útfærsla brúarlána og fleiri aðgerða.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fagnar því að ég taki gagnrýni vel og ég lít á það sem mikið hrós enda hef ég alltaf kunnað að meta stjórnmálamenn sem geta tekið gagnrýni. Ég held að það sé góður kostur á stjórnmálamönnum. En hann skammar mig líka fyrir að svara ekki spurningum. Þá bendi ég á á móti að fyrirspurnir hv. þingmanns eru allvíðfeðmar og þar er tæpt á mörgu. Ég vil ljúka því sem ég var að segja hér áðan. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafa lokið sinni samningsgerð um brúarlán. Það er mjög mikilvægt að þau komist í gagnið strax því að þetta er stór aðgerð og bankarnir hafa fengið töluverðan hvata til þess að geta nýtt sér þessi brúarlán sem snúast ekki bara um 70% ríkisábyrgð. Þau snúast líka um lækkun sveiflujöfnunarauka, flýtingu á lækkun bankaskatts o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að þetta úrræði nýtist sem skyldi.

Hvað verða pakkarnir margir?, spyr hv. þingmaður. Við erum stödd í kreppu sem mun væntanlega rata í sögubækurnar (Forseti hringir.) sem ein sú óvæntasta en líka dýpsta kreppa sem við höfum staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum og þótt lengur væri leitað. Munu verða frekari aðgerðir? (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu. Við erum stödd í miðjum storminum. Við sjáum meira að segja fjölgun smita vegna faraldursins (Forseti hringir.) í ríkjum þar sem er verið að aflétta takmörkunum. Við munum þurfa að vera mjög sveigjanleg og hreyfanleg til að bregðast við.