150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

frekari aðgerðir vegna Covid-19 faraldurs.

[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér áhugavert að hæstv. forsætisráðherra ætlar þinginu, alla vega hluta þingsins, að fylgjast með fréttum en öðrum ekki. En ég læt það liggja milli hluta.

Það sem ég vil undirstrika er að skrefið er í rétta átt. Það sem ég skildi hins vegar ekki er, og það er bara liðið það sem er liðið, af hverju hlutastarfabreytingin var ekki kynnt í síðustu viku. Ekki þarf að segja mér að það hafi komið ríkisstjórninni á óvart að mánaðamót eru í þessari viku. Það hefur ekkert breyst. Fyrirtæki þurfa skýrari skilaboð miklu fyrr en bara í kringum mánaðamót og erfiðar dagsetningar í rekstri fyrirtækja.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra — af því að mér finnst aðgerðirnar enn einkennast af því að fresta greiðslum, bjóða upp á lán, sem er ágætt í sjálfu sér svo lengi sem það er gert skilvirkara — mun hún beita sér? Sýnir hún ákveðinn skilning varðandi beinan stuðning við fyrirtæki, sérstaklega innan ferðaþjónustunnar, sem hafa einmitt orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar? Mun hún sýna því skilning, mun hún skoða það að fara í beinan (Forseti hringir.) stuðning við fyrirtækin til þess m.a. að þau geti viðhaldið tengslum við útlönd, sem eru dýrmæt, til að mynda að ferðaþjónustufyrirtæki geti talað við ferðaheildsala, viðhaldið þeim tengslum þannig að (Forseti hringir.) lágmarksstarfsemi fyrirtækjanna verði m.a. studd af hálfu ríkisins.

(Forseti (SJS): Forseti minnir á tímamörk, bæði hv. fyrirspyrjandi og hæstv. ráðherra hafa verið dálítið tæpar á þeim.)