150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

aðgerðir til að tryggja flugsamgöngur.

[13:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir okkur að búa við traustar flugsamgöngur. Við eigum mikið undir því að fólk og varningur komist reglulega og örugglega til og frá landinu allt árið um kring. Komin er upp alvarleg staða í þessum efnum og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra um plan ríkisstjórnarinnar til að tryggja hér flugsamgöngur og stöðu Icelandair. Aðgerðirnar sem kynntar voru fyrr í dag munu augljóslega ekki tryggja starfsemi Icelandair til lengri tíma. Þúsundir manna eiga afkomu sína undir starfsemi fyrirtækisins og það skiptir íslenskan almenning og íslenskt samfélag gríðarlega miklu máli að starfsemi og störf Icelandair séu varin. Það verður varla gert í núverandi stöðu nema með myndarlegri aðkomu ríkisins. En það er ekki sama hvernig það er gert. Við verðum að velja leiðir með hagsmuni almennings í huga og að fjármunum ríkisins sé vel varið, að einhver von sé til að fá fjármuni til baka þegar betur árar. Hæstv. samgönguráðherra sagði þó í viðtali við RÚV um helgina að það væri verkefni Icelandair að bjarga sér sjálft út úr vandanum og að ríkisvaldið væri fyrst og fremst að fylgjast með. Ég hef ekki heyrt hæstv. forsætisráðherra benda á sérstakar leiðir fyrir Icelandair út úr þessum vanda en það hefur hins vegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar gert, hv. þm. Óli Björn Kárason. Hann sagði í fréttum RÚV um helgina að það kæmi ekki til greina að ríkið tæki þátt í rekstri Icelandair, hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma, en það komi til greina að veita félaginu víkjandi lán.

Er hæstv. forsætisráðherra sammála formanni efnahags- og viðskiptanefndar að ekki komi til greina að ríkið komi að rekstrinum? Er hún sammála því að það eigi að veita fyrirtækinu víkjandi lán eða ætti ríkið frekar að koma að flugrekstrinum í sérstöku rekstrarfélagi? Vill hún jafnvel að ríkið eignist hlut í Icelandair eða vill hún fylgjast með á hliðarlínunni og standa þar með hæstv. samgönguráðherra?