150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

aðgerðir til að tryggja flugsamgöngur.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Rétt er það sem kemur fram í máli hennar að ýmsir hafa lagt fram hugmyndir um framtíð Icelandair. Ég vil segja það fyrst að Icelandair er mikilvægt fyrirtæki, ekki bara fyrir flugsamgöngur til og frá landinu, heldur hefur það verið undirstöðuaðili í ferðaþjónustu á Íslandi og lykilaðili í vexti hennar á undanförnum árum. Ég vil hins vegar segja það hér, af því að hv. þingmaður segir að þær aðgerðir sem kynntar voru í morgun skipti Icelandair ekki máli, að það er ekki svo. Þær munu vissulega skipta þetta fyrirtæki mjög miklu máli og munu styðja við það í því verkefni sem það stendur í núna sem er að ráðast í að safna auknu hlutafé inn í félagið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að þau áform sem félagið hefur kynnt um að safna nýju hlutafé geti gengið eftir.

Hef ég trú á því að þetta félag eigi framtíð fyrir sér? Já, en næsta skref hjá því félagi er að ráðast í það að safna nýju hlutafé, ekki bara frá sínum eigin hluthöfum heldur sömuleiðis leita víðar fanga. Ég hef ekki útilokað neitt um aðkomu ríkisins að þessum málum en mikilvægt er að félagið geri sínar áætlanir og hafi sína framtíðarsýn á hreinu áður en til þess kemur.