150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er sennilega rétt að ég geri örstutta grein fyrir samhengi breytingartillögunnar sem ég legg hér fram ásamt öðrum hv. þingmanni. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir er með sitt eigið nefndarálit sem ég er ekki á. Ég er ekki alveg sammála öllu þar en ég er sammála sumu og kem til með að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um tillögu um að fella brott þessar greinar. Hins vegar leggjum við hv. þingmaður saman fram breytingartillögu sem miðar að því að bæta málið, þ.e. á 5. og 6. gr. Þetta eru greinar sem hv. þingmaður leggur til í sínu nefndaráliti að verði felldar brott. Það er fyrsta krafa þess hv. þingmanns en til vara styður hv. þingmaður þá tillögu sem kemur fram í breytingartillögunni.

Mig langaði bara að hafa þetta skýrt. Atkvæðagreiðslan mun þá fara þannig fram að sú tillaga sem gengur lengra verður tekin fyrir fyrst. Að því gefnu að þær tillögur verði felldar koma til atkvæða þær tillögur sem ganga ekki jafn langt en eru þó til bóta.

Mig langaði bara að hafa þetta samhengi skýrt því að ég áttaði mig skyndilega á því að hv. þingmaður er ekki í salnum og þess vegna ágætt að ég komi þessu samhengi á framfæri.