150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[15:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Þær áhyggjur sem ég hafði kannski sérstaklega varðandi það að þetta mál væri að koma fram núna, og það á að vinna það, sem ryður frá öðrum málum sem komast ekki að, voru hvort þetta væri Covid-mál. Þar af leiðandi spyr ég sérstaklega út í hvort þeir peningar sem eiga að koma þarna til skili sér hratt og vel til fólksins í landinu sem þarf á þeim að halda núna. Mér fannst Framleiðnisjóður og AVS-sjóðurinn svara því ágætlega. AVS er búinn að úthluta, þeir gera það einu sinni á ári. Framleiðnisjóður á eftir að úthluta einu sinni, í október. Mig langar því að spyrja hv. formann hvort ég skildi það rétt að sjóðurinn myndi úthluta þá, eða fara öll verkefnin yfir í Matvælasjóð? Mér heyrðist hv. formaður segja að Framleiðnisjóður myndi samt úthluta í haust. Mér sýnist það ekki rúmast innan þessa, en væri ágætt ef svo væri því að þeir eru líklegri til að koma þessu út hratt. Það var samt sem áður nefnt í nefndinni, ráðuneytið sagði að ef þessi nýju lög yrðu samþykkt og Matvælasjóður settur á fót, þá er skipuð stjórn en þegar er búið að semja mikið af verkferlunum. Þetta mál var lagt fram áður og búið að vera í vinnslu í ár eða lengur þannig að þessir ferlar eru til að miklu leyti. Úthlutunin gæti því skilað sér í haust sem væri kannski á svipuðum tíma ef Framleiðnisjóður færi af stað núna og óskaði eftir umsóknum. Það tekur tíma að safna umsóknunum saman, svo koma sumarfríin og úthlutunin gæti kannski verið hjá þeim líka í haust þó að þeir gætu kannski keyrt það eitthvað aðeins hraðar.

Það er eitt sem skiptir máli, að frumvarpið valdi því ekki að þessir peningar komist seinna í umferð. Það að þessir peningar séu settir í umferð er Covid-mál. Ef það er gert í gegnum nýjan Matvælasjóð gæti það skemmt fyrir því að þetta sé Covid-mál eða með Covid-áherslum. Það þarf að vera alveg ljóst. (Forseti hringir.) Ráðuneytið verður að setja púður í það og standa við þau fyrirheit. Ég vona að (Forseti hringir.) formaður styðji það, að skilningur nefndarinnar sé að þessir peningar fari sem fyrst í vinnu. Ef menn (Forseti hringir.) ætla að tefja það eitthvað þá þarf sterka réttlætingu fyrir því (Forseti hringir.) og komast skýrt til skila til okkar sem erum að samþykkja þetta.