150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta mál og fagna því alltaf og ávallt þegar við stöndum okkur betur í rafrænni stjórnsýslu. Þó að tilefnið á þessum tímapunkti núna sé ekki gott sjáum við það samt sem áður í þessum hamförum að við erum að læra mikið og sjáum tækifærin sem liggja í rafrænni stjórnsýslu. Ég vona að okkur lukkist að halda áfram á þeirri vegferð.

Það vekur þó furðu mína eftir að hafa fylgst með umræðunni um þetta mál í dag að hún hefur á köflum verið, og þá vísa ég sérstaklega í ræður frá þingmönnum Miðflokksins, einhvern veginn algjörlega út úr kú við það sem stendur í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans.

Ég styð þetta mál. Það er mikilvægt ef fólk vill raunverulega einfalda líf fólks og styðja rafræna stjórnsýslu og einfalda hlutina að það styðji málin líka þegar þau koma inn til þingsins en sé ekki bara gasprandi á torgum um mikilvægi þess að minnka kerfið (Forseti hringir.) en segi svo nei þegar kemur að því að greiða atkvæði um það.