150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna launa þingmanna og ráðherra.

731. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um niðurfellingu launahækkunar þingmanna og ráðherra og frystingu launa þeirra fram yfir alþingiskosningar 2021. Frumvarpið er flutt af þingflokkum Pírata, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og Andrési Inga Jónssyni, sem er utan flokka.

Forseti. Ég ætla að byrja á að tala um samstöðu. Okkur verður tíðrætt um samstöðu þessa dagana. Hæstv. forsætisráðherra talaði um samstöðu þegar hún hvatti fyrirtæki í sjávarútvegi til að falla frá milljarðakröfum sínum á ríkissjóð vegna þess að, með leyfi forseta:

„Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í. Þó að ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi að draga kröfurnar til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra, hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk, þingmenn eða hver sem við erum. Fram undan eru brattar brekkur, ekki bara hvað varðar takmarkanir á samkomum, það eru brattir tímar fram undan í efnahagslífinu.“

Ég er fullkomlega sammála hæstv. forsætisráðherra um að nú reynir á ábyrgð og samstöðu ráðherra og þingmanna með almenningi. Nú þegar gríðarlegar efnahagsþrengingar blasa við og valda mörgum miklum tekjumissi og jafnvel atvinnumissi þykir mér það algjörlega fráleitt í raun og veru og úr allri tengingu við raunveruleika flestra í samfélaginu að á sama tíma og þessar efnahagsþrengingar blasa við þá standi til að framkvæma launahækkun þingmanna og ráðherra um næstu mánaðamót, eftir örfáa daga. Sú framkvæmd mun fela í sér afturvirkar greiðslur fyrir fjóra mánuði ásamt því að laun ráðherra hækka um rúmar 100.000 kr. á mánuði, laun forsætisráðherra um 130.000 kr. og laun okkar þingmanna um tæp 70.000 kr.

Aðspurð hvort það kæmi til greina að hafna þessari launahækkun í ljósi aðstæðna sagði hæstv. forsætisráðherra í viðtali við fjölmiðla, með leyfi forseta:

„Ég held að við séum öll meðvituð um það að allar forsendur ríkisfjármála eru að breytast núna og það getur haft áhrif á launaþróun allra í samfélaginu og það getur átt við um okkur eins og aðra.“

Forseti. Þetta er ekkert svar. Þetta er reyndar mjög gott dæmi um hvernig stjórnmálamenn forðast að svara spurningum yfir höfuð. Svo ég vitni aftur í fyrri orð hæstv. forsætisráðherra: Það ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í.

Ég spurði fjármálaráðherra fyrir stuttu hvort honum fyndist ekki eðlileg og sjálfsögð krafa að þingmenn og ráðherrar féllu frá þessum launahækkunum sínum. Hann svaraði, með leyfi forseta:

„Mér finnst hins vegar vel koma til greina, ef tekst eitthvert alvörusamtal um það að fara í launafrystingar eða lækkanir, að þá ættu hinir opinberu embættismenn, þeir sem eru í æðstu stjórn ríkisins, að leiða þá breytingu, þá þróun.“

Fjármálaráðherra firrir sig allri ábyrgð og leggur til að ákvörðunin kom einhvers staðar annars staðar frá, en hann má eiga það að hann gefur alla vega upp afstöðu, ólíkt hæstv. forsætisráðherra. En auðvitað liggur afstaða hæstv. forsætisráðherra fyrir þótt hún fáist ekki til að gefa hana upp með berum orðum.

Við Píratar fórum fram á það við hæstv. forsætisráðherra, og Samfylkingin einnig, að ríkisstjórnin myndi sjálf eiga frumkvæði að því að afturkalla þessa launahækkanir en hún varð ekki við því. Það er afstaða fólgin í því, forseti.

Við Píratar buðum öllum flokkum á Alþingi að flytja þetta þingmál með okkur þegar ljóst varð að ríkisstjórnin myndi ekki bregðast við en flokkur hæstv. forsætisráðherra varð ekki við því heldur. Það er afstaða fólgin í því, forseti.

Aðeins að tæknilegum atriðum. Ég ætla aðeins að fara yfir þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að felld verði niður sú hækkun sem þingmenn og ráðherrar fengu þann 1. janúar sl.

Í öðru lagi er lagt til að laun þingmanna og ráðherra þann 1. maí verði lækkuð um sem nemur þeirri hækkun sem þeir eiga rétt á fyrstu fjóra mánuði ársins, þ.e. frá 1. janúar til loka apríl. Þannig koma þeir út á jöfnu og útgreidd heildarlaun 1. maí verði þau sömu og þau hafa verið.

Í þriðja lagi er lagt til að krónutala launanna verði fest í lögum um þingfararkaup annars vegar og lögum um Stjórnarráð Íslands hins vegar þannig að þau haldist óbreytt til 31. desember 2021 eða fram yfir næstu kosningar til Alþingis. Það þing sem nú situr hefur reyndar vald til að afsala sér eigin launahækkunum en ekki væri rétt að gera slíkt hið sama fyrir þá þingmenn sem enn eru ókjörnir.

Forseti. Nú sjáum við fram á gríðarlegar þrengingar og erfiðleika á vinnumarkaði eins og ég fór yfir áðan, með fordæmalausu atvinnuleysi og miklu tekjufalli fyrir fyrirtæki, fjölskyldur og einstaklinga. Ráðamenn verða að gera sér grein fyrir því að við slíkar aðstæður geta þeir ekki vænst þess að þiggja sjálfir þessa launahækkun, þó að hún sé vísitölubundin og jafnvel þó að hún miðist við góðæri ársins á undan. Ráðamenn eiga að bregðast við þeirri sjálfsögðu kröfu að falla frá öllum áformum um kjarabætur á slíkum tímum.

Forseti. Batnandi mönnum er best að lifa og því er ekki útilokað að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn snúist hugur. Ég vona svo innilega að það komi í ljós en stuttur tími er til stefnu. Það kemur þá í ljós á allra næstu dögum hvort hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin vilji stíga um borð í bátinn með almenningi.