150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna launa þingmanna og ráðherra.

731. mál
[19:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp okkar Pírata, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins um að afturkalla þá taktlausu launahækkun sem þingmenn eiga von á eftir örfáa daga. Ég get í raun og sann tekið undir hvert einasta orð hv. þingkonu Halldóru Mogensen. Ég ætla rétt að gera það að umræðuefni mínu hér að það mun sjást hvort einhver pólitískur vilji er fyrir hendi hjá einhverjum þingmönnum stjórnarliða til að taka þetta mál til meðferðar og til að láta það verða að veruleika á allra næstu dögum því að við vitum hvernig þingið hér virkar. Nú mælum við fyrir málinu. Að því loknu fer það til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þar mun það ráða algjörlega för hvort vilji meiri hluta þingmanna er fyrir hendi til að bregðast við. Við munum sjá hverjir vilja standa með almenningi í gegnum þessar hræringar. Við munum sjá hverjir eru tilbúnir að sýna samstöðu með samfélaginu, hverjir eru til í að bretta upp ermar til að láta það verða að veruleika. Eins og komið hefur fram er tíminn skammur. 1. maí er á föstudaginn. Því þyrfti að ljúka málinu fyrir föstudaginn, sem sagt á fimmtudaginn til að það megi verða að veruleika. Við köstum upp bolta og hann er nú hjá stjórnarmeirihlutanum sem getur sýnt hvað í honum býr.