150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

brúarlán og staða Icelandair.

[10:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi eru liðnar um sex vikur frá því að ríkisstjórnin kynnti svokallaðan aðgerðapakka númer eitt. Enn er þó stærsta framkvæmd þess pakka eins og hann var kynntur ekki komin til framkvæmda og eftir því sem ég best veit er töluvert langt í að af því verði, ef það gerist yfir höfuð. Hver er staðan á brúarlánunum svokölluðu? Að hvaða leyti stendur upp á stjórnvöld að klára það sem þarf að klára til að það verði að veruleika?

Í öðru lagi spyr ég um Icelandair. Framlag ríkisins til fyrirtækisins í þessu ástandi hefur til þessa fyrst og fremst falist í stuðningi við fyrirtækið til að hjálpa því að segja upp fólki. Er ekki von á annars konar stuðningi frá stjórnvöldum? Það er augljóst að núverandi hluthafar og hugsanlegir nýir hluthafar bíða eftir útspili ríkisins á meðan ríkið virðist bíða eftir útspili hluthafanna. Er ekki eðlilegt að ríkið gefi til kynna með hvaða hætti það geti verið tilbúið til að koma að? Fyrirtækið er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf, 72.000 störf tengd því á einn eða annan hátt ef við lítum til að mynda á áhrif þess á ferðaþjónustu. Þar af leiðandi er ekki hægt fyrir stjórnvöld annað en að vera a.m.k. með plan um það hvernig þau ætli að bregðast við eftir því hvernig hlutirnir þróast.

Hvert er plan stjórnvalda? Hvað er hæstv. fjármálaráðherra tilbúinn til að gefa til kynna til að liðka fyrir því að hreyfing komist á þessi mál?