150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

verðbólguhorfur og húsnæðislán.

[11:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég skal tala skýrt og skorinort um hvað það er sem ég vil. Ég vil að tímabundið verði sett þak á verðtrygginguna, 2,5% eins og Seðlabankinn er með. Stoppum hana tímabundið. Við getum alveg eins gert það og tímabundnar ráðstafanir í Covid-málum, ekkert mál. Hvað annað þurfum við að gera? Jú, við þurfum að endurskoða mælinguna á þessu. Hún er röng, hún er kolröng vegna þess að það er verið að mæla fullt af hlutum í vísitölunni núna sem er í núlli, eru ekkert, en það er bara stuðst við gamla útreikninga eftir því sem mér skilst. Þess vegna er þetta kolrangt. Þess vegna verðum við að taka verðtrygginguna úr sambandi. Við verðum að endurskoða hvað liði við erum með inni í vísitölunni og ganga í það að hafa það rétt. Á meðan getum við sett 2,5% verðtryggingu tímabundið til haustsins eða til næstu áramóta. Það ætti ekki að setja neitt á annan endann heldur gefa fólki tryggingu um að það þurfi ekki að óttast að missa húsnæði sitt í verðbólgunni.