150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

verðbólguhorfur og húsnæðislán.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað yfirlýsing um að menn hafi enga trú á verðbólguvæntingum eða hafi misst trú á meginverkefni Seðlabankans og getu hans til að standa við verðbólgumarkmiðið ef hér á Alþingi yrðu samþykkt lög, þrátt fyrir að engar sérstakar verðbólguvæntingar væru merkjanlegar, um að setja 2,5% þak á vexti verðtryggðra lána, jafnvel þótt það væri til skamms tíma. Það fælist í því gríðarlegt vantraust á Seðlabankann og það væri yfirlýsing um að hér væri verðbólga væntanleg. Þess vegna er ég andvígur slíkri hugmynd og mér finnst í raun og veru algjörlega skorta frekari rökstuðning fyrir því, m.a. hvaða verðbólga það væri sem gæti réttlætt slíkt inngrip.

Það er margt fleira sem er áhugavert að ræða í þessu sambandi en hlutverk okkar er einmitt fyrst og fremst að verja hag heimilanna og það gerum við með því að halda vel utan um breiðu línurnar en reyna ekki svona einföld inngrip.