150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[12:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, markmið og hlutverk. Þetta er hið besta mál og það væri það enn frekar ef þetta væri hið besta mál fyrir alla en það sem slær mig því miður í þessu frumvarpi og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er í á bls. 4. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar benti Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra á að það væri ekki markmið Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða að tryggja að allur almenningur hefði aðgang að þeim ferðamannastöðum sem hann styrkti þar sem ekki væri gerð krafa um það í lögunum að uppbygging sem styrkt væri af sjóðnum skyldi vera á grundvelli sjónarmiða um algilda hönnun.“

Þetta er grafalvarlegt mál. Þarna er vissulega vísað í lög nr. 160/2010, um mannvirki, og við vitum hvernig framkvæmdin er á þeim. Við vitum hvernig virðist vera búið að útbúa kassa sem allir rýna ofan í og menn neita að sjá að það er fólk fyrir utan kassann sem getur ekki nýtt sér það sem er í kassanum, getur ekki nýtt sér opinberar byggingar, getur ekki nýtt sér almenna ferðamannastaði. Samkvæmt þessu heldur óréttlætið áfram.

Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að hysja upp um sig buxurnar og sjá til þess að mannréttindi séu virt og farið að lögum um málefni fatlaðra, að ekki sé þumlungur gefinn eftir af réttindum fatlaðra? Þeir eiga rétt á því að komast að opinberum stöðum, bæði ferðamannastöðum og öðrum, eins og allur annar almenningur.