150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda.

709. mál
[13:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ansi mikið af upplýsingum sem ratar þarna inn á skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu, starfsmanna þeirrar skrifstofu. Þegar maður skoðar frumvarpið sést að þetta eru tvímælalaust upplýsingar sem eru mikilvægar en einnig er hægt að misnota þær. Til að hafa það alveg á hreinu er dálítið á mörkunum hversu miklar upplýsingar eru í rauninni í höndum opinberra aðila. Það sem helst vekur athygli mína hvað það varðar er eftirlitshlutverkið, eftirlit með meðhöndlun þeirra upplýsinga og kannski einmitt skortur á sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu, sem við höfum oft talað um hérna áður. Það væri mjög viðeigandi að slíkt fylgdi þessu frumvarpi til að það sé passað upp á persónuvernd og o.fl. en líka hvernig er farið með þær upplýsingar og gögn sem starfsmenn þessarar skrifstofu hafa. Það eru jú mismunandi skoðanir á því hversu viðkvæmar þær upplýsingar eru. Fólk hefur missterkar skoðanir á því. Ég hef ekkert allt of miklar skoðanir á því en ég skil það vel þegar sumir hafa áhyggjur af aðgengi að upplýsingum og sérstaklega þegar aðili á borð við lögreglu er með aðgengi að upplýsingum. Ég vildi því leita til ráðherra varðandi sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu hvað þetta mál varðar og þá misnotkunarmöguleika sem tengjast þessum upplýsingum, sem eru allir bankareikningar og geymsluhólf og hvað það nú má vera, (Forseti hringir.) sem lögreglan fær aðgang að með þessu frumvarpi.