150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir það sem hér var sagt um mikilvægi þessa nýmælis og hvernig því sé háttað. Ég held að hér séum við komin að niðurstöðu sem við vorum öll að leita að þar sem hagsmunir barnsins eru í húfi, þar sem þeir eru í forgangi, en við tryggjum jafnari stöðu foreldra samt sem áður. Það sem hv. þingmaður kemur hér inn á og spyr um er þegar eitthvað kemur upp á í samstarfi foreldra, ef svo má kalla, og hvort þá þurfi forsendur fyrir skiptri búsetu endilega að vera fullkomlega brostnar. Það þarf í raun ekki að vera og hægt er að leita til sýslumanns áður en litið er svo á að samningur sé brostinn og fá ráðgjöf eða sáttameðferð og eitthvert samtal um það sem mögulega er ágreiningur um. En síðan má auðvitað búast við því að ef ágreiningurinn er mikill sé ekki lengur vilji fyrir svona úrræði. Þarna verðum við að búast við því að það sé ríkur vilji til að finna lausnir og finna niðurstöðu þó að einhver ágreiningur sé uppi á milli foreldranna sjálfra. Við leggjum fram þetta úrræði sem algerlega valfrjálst úrræði og þá eru afskipti kerfisins minni, foreldrar njóta þeirra réttinda að vera algerlega jöfn í aðkomu að uppeldi barnsins og þá verðum við að treysta því að þau finni út úr sínum ágreiningsmálum. Þau geta annars fengið samningnum hnekkt vegna þess að forsendur séu brostnar. En ég held að það sé alveg rétt að þau geti leitað einhvers konar ráðgjafar vegna minni háttar ágreinings svo að samningurinn fari ekki út um þúfur.