150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[15:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég þekki þessa umræðu. Hv. þingmaður hefur í störfum sínum innan fjárlaganefndar komið því á framfæri, þ.e. um lengd þessa viðbótarsamkomulags. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig að samningsgerðinni var staðið. Það var í höndum framkvæmdarvaldsins og ég vænti þess að þá hafi verið farið vel yfir þá lagalegu þætti sem þarf að huga að við slíka samningsgerð. Það sem ég vil einungis segja er að það sem liggur til grundvallar þessu öllu saman er, eins og hv. þingmaður þekkir ágætlega, kirkjujarðasamkomulagið sem stendur óhaggað. Þar er um lögvarinn samning að ræða sem kirkjan og ríkið gerðu á grundvelli kirkjueigna og ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér það ágætlega. Með samkomulaginu frá 1907 fær sem sagt ríkið umsjón með jarðeignum kirkjunnar sem átti þá um 25% alls lands og síðan er það 1997 sem ríkið fær jarðirnar til eignar og þjóðkirkjan afhendir eignir sínar til ríkisins gegn endurgjaldinu sem er verið að greiða enn þann dag í dag. Menn geta svo deilt um það hvort búið sé að greiða það að fullu eða ekki og ég veit að hv. þingmaður hefur ákveðnar skoðanir hvað það varðar. En ég tel, af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um lengd samningsins, að það sé eitthvað sem framkvæmdarvaldið hafi séð um og hljóti því að hafa haft til hliðsjónar þau lagaákvæði sem ber að fylgja í þeim efnum.