150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er margt athyglisvert í þessu og gott að losna við gömul lög og reglur út úr lagasafni. Það er hárrétt. Þegar hv. þingmaður spyr út í það sem ekki er í frumvarpinu fagna ég þeirri fyrirspurn hans af þeirri einföldu ástæðu að við fórum fyrst og fremst inn í þau lög sem þarna eru tilgreind og reyndum þar að taka gróft á ýmsum þáttum, úr sér gengnum nefndum o.s.frv. Ég vænti þess að tekið verði á þeim þáttum sem hv. þingmaður nefnir, breytilegum kröfum á milli ólíkra starfsemisþátta eins og landeldi og sjóeldi á fiski, í þeim eftirlitsreglum sem eru þriðji áfangi í þessu verki sem við hófum í fyrrahaust. Við tókum fyrst til í reglugerðarsetningunni og svo fórum við inn í lagasafnið að hreinsa. Eftirlitsreglurnar sjálfar eru núna til skoðunar og ég vænti þess að fá fyrstu drög að þeim í næsta mánuði. Ég get ekki tjáð mig um sérstök mál í hinum fagra dal Svarfaðardal vegna þess að það mál er í kæruferli, en ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður ber hér inn varðandi það. Málið er í ákveðnu ferli í viðkomandi stofnun.

Ég tek undir þau sjónarmið að það sé óeðlilegt að gera nákvæmlega sömu kröfur varðandi eftirlit ef við erum að bera saman landeldi og sjóeldi. Til upplýsingar fyrir þingmanninn veit ég um eldri umsókn um (Forseti hringir.) eldi á fiski á landi en eitt og hálft ár, ég hef séð verri dæmi. Það eru einhverjir tappar í þessu kerfi sem við þurfum að taka á.