150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

biðlistar í valkvæðar aðgerðir.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir svörin. Við vitum að í þessu ótrúlegu ástandi sem við erum búin að vera í, ef við tökum nokkra mánuði aftur í tímann og síðan Covid kom, þá hafa að meðaltali dáið á Íslandi 44 einstaklingar á viku en hafa verið áður 46, þannig að við erum eiginlega í betri málum en margar aðrar þjóðir að þessu leyti. En í framhaldi af því þá spyr ég hvað við ætlum við að gera þegar við sjáum að á biðlistunum er kominn nokkuð stór hópur af einstaklingum sem er kominn með rétt til þess að fara erlendis í aðgerðir. Hvernig ætlum við að taka á því? Þessir einstaklingar geta ekki nýtt þennan rétt. Ég spyr: Hvað verður gert fyrir þetta fólk? Verður séð til þess að þeir fái þessar aðgerðir innan lands? Það væri auðvitað langbest vegna þess að hér er hægt að gera liggur við þrjár aðgerðir fyrir hverja eina þannig að við myndum spara mikinn pening á því. Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að leysa þetta?