150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir umræðurnar í dag um þetta mikilvæga mál. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á sem geta kannski varpað aðeins skýrara ljósi á sumt af því sem hér hefur verið til umræðu. Ef ég byrja á spurningum og vangaveltum um kostnaðinn þá er nefnt í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að aukinn kostnaður Umhverfisstofnunar vegna frumvarpsins sé um 45 millj. kr., sem eru ekki sex til átta starfsmenn. Það eru frekar þrír til fjórir, sennilega þrír. Við settum þegar á árinu 2020, og það er í fjárlögum, tvö og hálft stöðugildi til stofnunarinnar til að mæta verkefnum sem við vissum að væru að koma vegna loftslagsmála og vegna ýmissa annarra verkefna sem stofnunin fer með. Í frumvarpinu er hins vegar líka gert ráð fyrir auknum kostnaði Landgræðslunnar og Skógræktarinnar vegna þátta sem snúa fyrst og fremst að rannsóknum á losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, hvort sem það er úthagi, votlendi eða hvað það er. Það eru, ef ég man rétt, ég gleymdi frumvarpinu í sæti mínu, um 48 milljónir. Ég held að við eigum að geta verið sammála um það, ef við tökum þennan síðari hluta sem snýr að Landgræðslunni og Skógræktinni, að þarna er náttúrlega verið að ræða um það að styrkja mjög til muna þær rannsóknir sem undirbyggja í rauninni það hvað land á Íslandi losar mikið. Við erum hreinlega ekki með nægilega góðar upplýsingar um það. Það á við um votlendi en líka t.d. mólendi í úthaga. Með þær upplýsingar að vopni getum við tekið á auðveldari hátt umræðuna um hvar þurfi að draga úr losun frá landi og hvar við ráðumst í að binda. Hins vegar vitum við að það verður mikil losun frá votlendi og við vitum að aðgerðir til að binda það kolefni, bæði með landgræðslu og skógrækt, hjálpa loftslaginu. Við erum öll sammála um það. Sama gildir um það þegar við mokum ofan í skurði, þá erum við að minnka útblásturinn sem annars hefði orðið.

Aðeins meira um kostnað og hvort frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem þurfa að kaupa kvóta samkvæmt ETS-kerfinu eins og það er í dag munu áfram þurfa að gera það, þannig að það er að sjálfsögðu kostnaður þar. Þegar ég kom í andsvari mínu inn á kostnaðinn áðan var ég ekki að tala um það, enda er ekki um breytingu að ræða nema sem lýtur að því að það er í rauninni verið að fækka heimildunum sem eru ókeypis. Það er til að fækka heimildunum í heild sinni þannig að það verði meiri hvati til þess að ráðast í tæknibreytingar og það virkar þá á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér voru nefnd líka þjónustugjöld fyrir losunarleyfi. Það er gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti rukkað þjónustugjöld fyrir losunarleyfi sem dugar fyrir um helming kostnaðar. Það er sams konar heimild í núgildandi lögum þannig að þetta er í sjálfu sér ekki breyting. Síðan var hér nefnt líka að það væri verið að innleiða heimildir til dagsekta. Þessar sömu heimildir eru í núgildandi lögum þannig að það eru engar breytingar þar á. Svo held ég að við þurfum að gera skýran greinarmun á því hvort heimild fyrir dagsektum sé gjöld á fyrirtæki eða hvort dagsektum sé beitt. Þeim er væntanlega ekki beitt ef fyrirtækin standa sig hvað varðar þau atriði þar sem mögulegt er að setja á dagsektir. Það er stór munur þar á.

Ég var búinn að koma aðeins inn á auknar rannsóknir og mig langar að taka sérstaklega endurheimt votlendis vegna þess að endurheimt votlendis er mjög oft í umræðunni. Þar hefur m.a. verið bent á að okkur skorti rannsóknir til að geta gert okkur betur grein fyrir því hvert raunverulegt umfang þeirrar losunar er sem þar verður og hvað við græðum á því að moka aftur ofan í skurðinn. Við erum í rauninni stödd þar að við vitum að það verður losun og við vitum að við gjörbreytum því ef við mokum ofan í skurðina. Þá dregur að sjálfsögðu úr losuninni og hún fer nær því að vera eins og hún er við náttúrulegar aðstæður. Þar getur verið ákveðin sveifla, losun eða binding, svolítið eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni og jafnvel á milli ára. Ég held að það að setja aukið fjármagn til Landgræðslunnar sem snýr að því að við förum að fá meiri upplýsingar um það hverju endurheimt votlendis skilar, sé jákvætt. Ég held að við ættum öll að geta verið sammála um það. Eins og komið var inn á er gerð grein fyrir því í frumvarpinu að þessi kostnaður rúmast innan fjárheimilda málefnasviðsins. Þegar fjármálaáætlunin síðasta var gerð þá gerðum við eins og góður húsfaðir eða góð húsmóðir gerir, við reyndum að horfa fram í tímann til að sjá hvaða kostnaður það væri sem við þyrftum að mæta á þessu ári og næsta og gera þar með ráð fyrir því að geta dekkað þann aukna kostnað sem við vissum að sjálfsögðu að myndi koma til.

Mig langar að nefna eitt enn varðandi endurgjaldslausu heimildirnar, en það er: Hvers vegna erum við með endurgjaldslausar heimildir yfir höfuð? Einhver gæti spurt: Af hverju á hluti af kvótanum sem fyrirtækin þurfa að verða sér úti um að vera ókeypis? Það er bara mjög sanngjörn spurning. Af hverju borga þau ekki bara fyrir allt sem þau menga? Svarið er að þar er einmitt verið að reyna að koma í veg fyrir það sem kallast kolefnisleki, þ.e. að iðnaður flytjist til svæða, hér var Kína nefnt, sem gætu boðið upp á umhverfi sem væri hagstæðara fyrirtækjunum. Þess vegna eru þessar endurgjaldslausu heimildir settar inn í regluverkið, til að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki flytji sig af Evrópska efnahagssvæðinu í þessu tilliti.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessari umræðu allri að við erum með þessu frumvarpi að horfa fyrst og fremst á það að setja hér í lög það samkomulag sem Noregur og Ísland hafa unnið að með Evrópusambandinu, þ.e. markmið um samdrátt. Ég heyri það á öllum þeim þingmönnum sem hér hafa talað að þeir telja mikilvægt að við náum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þarna erum við að setja markmið um samdrátt. Við erum að búa til um umgjörðina í rauninni um það hvernig við greinum frá því með hvaða móti við erum að ná þessum samdrætti. Frumvarpið fjallar ekki um nákvæma útfærslu aðgerða. Það gerir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hún var gefin út fyrst af þessari ríkisstjórn 2018 og við erum að endurskoða hana núna og höfum verið að því á síðustu misserum. Hér hefur verið umræða um hvata og jákvæða hvata og í aðgerðaáætluninni er t.d. gerð grein fyrir þeim mögulegu jákvæðu hvötum sem hægt er að ráðast í og það eru áætlanir um að ráðast í það. Við höfum á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar frá 2018 ráðist í fjöldann allan af slíkum hvötum, eins og einhverjir hv. þingmenn nefndu hérna, t.d. hvatar þar sem felldur er niður virðisaukaskattur af rafmagnsbílum eða metanbílum eða öðrum umhverfisvænni fararskjótum, styrkir til að koma með fjárframlag á móti einkaaðilum við að setja upp hraðhleðslustöðvar o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að við höldum áfram með þetta hvatakerfi og getum farið að beita því víðar en við höfum verið að gera, sem hefur verið fyrst og fremst í samgöngumálum eða vegasamgöngum, og beitt því líka í sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði, að það séu einmitt jákvæðir hvatar til umskipta í tækninni sem margir þingmenn komu hér inn á. Það er svo sannarlega verk í vinnslu en í þessu frumvarpi eru ekki nákvæmar útfærslur á slíku heldur fjallar það, eins og ég segi, um markmið um samdráttinn og umgjörðina utan um það hvernig við gerum grein fyrir því hvernig við stöndumst skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi.

Hér var nefnt líka af einum hv. þingmanni að miðað sé við árið 1990 í öllum þessum útreikningum. Reyndar er það nú svo að allt það sem snýr að samkomulaginu við Evrópusambandið miðar við 2005 í þeim aðgerðum sem gripið er til, þó svo að ártalið 1990 sé þar á bak við. Ég nefni þetta vegna þess að komið var inn á að 1990 væri á einhvern hátt óheppilegt ártal fyrir Ísland. Auðvitað getur Ísland ekki fengið eitthvert sérártal sem aðrar þjóðir eru ekki með, það verða allar þjóðir að miða við sama ártal. Ég vil nefna það sérstaklega að tekið er tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi í útreiknireglunum í samkomulagi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins. Þess vegna erum við að fá 29% kröfu en ekki hámarkskröfu eins og sum ríki fá, sem er 40%, vegna þess að okkur hefur þegar tekist að ná miklum árangri, sérstaklega þegar kemur að framleiðslu á rafmagni og hita.

Hér var líka spurt hvort það hefðu verið mistök að fara með ESB og Noregi. Ég er þeirrar skoðunar að það séu ekki mistök vegna þess að við erum hér í fyrsta lagi að taka þátt með þeim þjóðum í heiminum sem hafa einna mestan metnað til að draga úr losun og um það markmið erum við öll sammála, heyri ég á þingheimi. Við erum þannig, af því að fyrirtækin hafa mikið komið hér til umræðu, að búa til sama kerfi fyrir fyrirtæki á Íslandi og gildir meðal fyrirtækja í Evrópu. Ég hef ekki heyrt stóriðjuna á Íslandi kvarta yfir því að vera inni í þessu sameiginlega evrópska kerfi eða Samtök atvinnulífsins eða aðra hópa í atvinnulífinu. Við megum ekki heldur gleyma því að almennt séð er mjög mikilvægt að allar aðgerðir atvinnulífsins sem snúa að því að draga úr losun munu koma þeim til góða, ekki bara í nánustu framtíð heldur til lengri framtíðar. Það eru aðgerðir sem munu koma fyrirtækjunum vel til lengri tíma litið.

Ég vil þakka aftur kærlega fyrir umræðuna og segja að lokum að við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum áskorunum þegar kemur að loftslagsmálum. Við verðum að draga úr losun. Það vitum við. Til þess þarf reglur og umgjörð og hvort tveggja er sett með þessu frumvarpi. Til að ná samdrætti þurfum við aðgerðir sem unnið er að, eins og hér var komið inn á, með gerð aðgerðaáætlana í umhverfisráðuneytinu í mjög breiðu samstarfi við önnur ráðuneyti. Þegar við nefnum kostnað finnst mér stundum gleymast að horfa til þess að það er talinn þjóðhagslegur ávinningur af því að grípa til aðgerða og draga úr losun til skemmri og lengri tíma litið, sérstaklega til lengri tíma litið. Svo megum við heldur ekki gleyma því að það er auðvitað ákveðið ímyndarmál að halda sjó í loftslagsmálum, líka á þeim tímum sem við lifum núna með kórónuveirufaraldurinn sem geisar í heiminum. Það er fátt mikilvægara en að við getum flýtt framkvæmdum sem skila okkur árangri í að draga úr losun og auka bindingu eins hratt og hægt er. Ég vil bara segja að lokum að komandi kynslóðir munu líta til ákvarðana okkar núna. Þær ákvarðanir þurfa að vera í þágu loftslagsins.