150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[17:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir varðandi plastvörur. Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir að ráðist verði í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og er þetta liður í þeirri mikilvægu vegferð.

Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og var lagt fram í kjölfar opins kynningarferlis í samráðsgátt Stjórnarráðsins í desember sl. Tilskipun (ESB) 2019/904 tekur til um 20 einnota vörutegunda úr plasti. Henni er fyrst og fremst beint að þeim vörum sem finnast helst á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er 80–85% plast og þar af helmingurinn einnota plastvörur og hlutir tengdir veiðum um 27%. Tilskipuninni er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og draga úr myndun úrgangs með því að styðja við notkun sjálfbærra og margnota vara fremur en einnota vara.

Í frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði að meginstefnu innleidd með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er gert á grundvelli þess að fyrir eru í þeim lögum ákvæði um burðarpoka sem ákvæði frumvarpsins eru talin eiga samleið með. Með því að fara þessa leið er stuðlað að einföldu og gegnsæju regluverki og nýtingu þess vettvangs sem þegar er til staðar og felst í gildandi lögum. Ákvæði frumvarpsins falla vel að markmiðum laganna, svo sem hvað varðar að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði, vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, koma í veg fyrir eða draga úr losun út í vatn og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.

Hæstv. forseti. Meginmarkmið frumvarps þessa er að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og jafnframt að vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara í anda hringrásarhagkerfisins. Gert er ráð fyrir nokkrum mismunandi ráðstöfunum til að ná þeim árangri sem að er stefnt.

Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til bann við að setja á markað tilteknar einnota plastvörur, svo sem einnota bómullarpinna úr plasti, hnífapör, diska, sogrör, hræripinna og blöðruprik, sem og matarílát, drykkjarílát, bolla og glös úr frauðplasti. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki. Þá er í frumvarpinu lagt til bann við að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Um er að ræða plast sem stundum hefur verið nefnt oxó-plast og hafa vörur úr slíku plasti, svo sem burðarpokar, rutt sér til rúms á markaði síðustu ár en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu. Lagt er til að ákvæði um bann við að setja þessar tilteknu einnota plastvörur á markað öðlist gildi 3. júlí 2021.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að óheimilt verði að afhenda endurgjaldslaust einnota matarílát, bolla og glös úr plasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu beint úr viðkomandi íláti, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Tilgangurinn er að draga úr notkun á þessum vörum og beina fyrirtækjum og almenningi í átt að sambærilegum margnota valkostum. Jafnframt er lagt til að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Lagt er til að ákvæðið öðlist gildi 3. júlí 2021. Ákvæðið er sambærilegt gildandi ákvæði laganna um afhendingu burðarpoka.

Í þriðja lagi eru í frumvarpinu lagðar til kröfur um gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta. Annars vegar er um að ræða kröfu um að einnota drykkjarílát sem eru með tappa eða lok úr plasti verði einungis heimilt að setja á markað ef tappinn, eða lokið, er áfastur ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að tappar og lok af ílátum endi á víðavangi. Öll þekkjum við hvernig það er.

Undanskilin ákvæðinu eru drykkjarílát úr gleri eða málmi. Lagt er til að þetta ákvæði laganna taki gildi 3. júlí 2024, þremur árum síðar en önnur ákvæði þeirra, en þá má gera ráð fyrir að samhæfðir staðlar um þessar vörur liggi fyrir hjá evrópskum staðlastofnunum. Hins vegar er gerð krafa um að einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur skuli gerðar að tilteknum lágmarkshluta úr endurunnu plasti. Samkvæmt tilskipuninni skulu flöskur úr svokölluðu PET-plasti innihalda að lágmarki 25% endurunnið plast frá árinu 2025 og frá 2030 skulu allar flöskur sem falla undir ákvæðið innihalda að lágmarki 30% endurunnið plast. Meiri hluti þeirra einnota flaskna sem nú eru notaðar undir gosdrykki og álíka drykkjarvörur er einmitt framleiddur úr PET-plasti. Lagt er til að ákvæðið öðlist gildi 3. júlí 2021 en að það verði útfært með nánari hætti í reglugerð, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Einnig er lagt til í frumvarpinu að komið verði á reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar með því að ákvæðum laganna um plastvörur verði framfylgt. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun verði heimilt að stöðva markaðssetningu vöru þar til bætt hefur verið úr ágöllum og að stofnuninni verði jafnframt heimilt að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæðum laganna.

Að lokum er lagt til að sett verði stoð í lögunum fyrir reglugerðarákvæðum um plastvörur, m.a. um merkingar einnota plastvara, gerð og samsetningu einnota drykkjaríláta og töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast, til frekari innleiðingar á tilskipuninni. Jafnframt er lagt til að við lög um meðhöndlun úrgangs bætist ákvæði sem kveður á um að við gerð almenns fræðsluefnis um úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs skuli Umhverfisstofnun huga sérstaklega að upplýsingagjöf og fræðslu um plastvörur.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð.

Frumvarpið er til þess fallið að auka vernd umhverfisins. Einnota plastvörur eru sérstaklega alvarlegt vandamál í tengslum við rusl í sjó, þær skapa alvarlega hættu fyrir vistkerfi sjávar, líffræðilega fjölbreytni og mögulega heilbrigði mannanna. Þá er plastmengun líka ímyndarmál sem getur haft áhrif á ímynd ferðaþjónustu og fiskveiða.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.