150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[17:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, um plastvörur. Þetta frumvarp tel ég vera mjög mikilvægt en það nær kannski ekki yfir nógu breitt svið. Það er ekki nema 13 blaðsíður en fyrra frumvarpið um loftslagsmál er meira en 40 blaðsíður.

Það sem mér finnst gott við þetta er að það er verið draga úr plastnotkun og eitt af því er að draga úr losun úrgangs út í vatn. Við vitum líka að eitt af stóru vandamálunum við plast í vatni er þvottur á fötum sem eru unnin úr plastefnum. Minnstu agnirnar, þær sem eru eiginlega ekki sýnilegar, fara í sjó og enda því miður sem fæða hjá fiskum og öðrum sjávardýrum. Síðan er gígantískt magn af plasti sem safnast upp á ströndum og við höfum orðið vör við, t.d. í friðlandinu á Hornströndum. Það er spurning um hreinsun á því og hvernig við ætlum að standa undir þeim kostnaði. Það væri auðvitað frábært vinnuúrræði fyrir nema í sumar að við myndum kortleggja strendurnar og hreinsa plast.

Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af í þessu er kostnaðurinn. Ef við hættum plastnotkun verður til kostnaður í búðum. Þá er ég að hugsa um þá sem eru á lægstu launum og lífeyrislaunum, það gæti orðið gífurlegur kostnaður fyrir þá einstaklinga og þeir mega bara ekkert við því. Spurningin er hvernig eigi að taka á því. Er það í umræðunni hjá hæstv. ráðherra hvernig á að sjá um að þetta bitni ekki á þeim sem síst skyldi?