150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt hvað þetta frumvarp varðar að muna að í fyrsta lagi er verið að setja bann við ákveðnum fjölda einnota plastvara þar sem til eru staðgönguvörur. Hins vegar er verið að setja gjald á einnota matarílát, bolla, glös og annað slíkt, þar sem ég tel auðvelt að vera með annars konar vöru sem ekki er úr einnota plasti. Það er svo mikið af því sem finnst á ströndum hjá okkur og markmiðið með þessu er að draga úr því.

Við höfum þegar ágætisreynslu af frumvarpinu sem var samþykkt hér í fyrra um plastpokana. Plokkarar sem eru úti að tína rusl tala um það núna að plastpokum hafi stórlega fækkað, sérstaklega þeim litlu úr grænmetisdeildinni. Krónan var með frétt fyrir mánuði eða tveimur um að stórlega hefði dregið úr fjölda plastpoka þar.

Síðan kemur hv. þingmaður líka inn á umbúðir sem oft eru úr plasti og ég skal aðeins bregðast við því. Reyndar er ekki tekið á því í þessu frumvarpi en það er í pípunum að sú ábyrgð eigi að vera á framleiðendum. Það á að setja þann kostnað inn í svokallaða framleiðendaábyrgð sem við höfum á mörgum vörum í gegnum Úrvinnslusjóð. Þar með er það á ábyrgð framleiðandans sem er að framleiða akkúrat þessa vöru, það kemur gjald á það og framleiðandinn þarf á endanum að borga fyrir að nota plast (Forseti hringir.) ef hann kýs að gera það. Þetta er ætlað sem hvati til að leita annarra leiða.