150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Næsta sem mig langar að velta upp við þingmanninn er hvort við erum e.t.v. að nálgast þessa hluti með röngum hætti. Við förum í verslun í dag og ef við gleymum margnota pokanum heima, sem er búinn til úr efnum, plasti eða einhverju slíku, þá greiðum við um 30 kr. fyrir burðarpokann í versluninni, burðarpoka sem gætum komið með aftur og aftur. Hvað ef við gerðum þetta öðruvísi? Að í hvert skipti sem við kæmum með burðarpokann með okkur fengjum við 30 kr. afslátt af reikningnum okkar í staðinn fyrir að fara þessa neikvæðu leið sem snýr að því að rukka okkur fyrir þessa poka. Þarna væri kominn hvati, jákvæður hvati til að taka pokann með sér í verslunina og fyrir marga gæti þetta skipt nokkru máli þegar fram líður, að geta fengið einhvers konar smáafslátt, nokkrar krónur, þegar þeir koma með þennan poka með sér.

Hitt er hvort við eigum að beita okkur fyrir því — í stað þess hvetja menn til að hætta að nota skinn í framleiðslu, loðdýr, sem svo mörg eða einhver samtök gera — að hvetja til þess að meira sé unnið úr slíku þar sem nýsköpun í þeim vörum, hvort sem það er ull eða skinn, hvetja til notkunar á þessu, því að þetta hlýtur að vera betra, í það minnsta ef við horfum á hafið og lífríki, því að þetta er vara, afurðir af dýrum sem brotna miklu hraðar niður í náttúrunni heldur en nokkurn tímann það sem er unnið úr plastflöskum eða einhverju slíku sem við þekkjum mjög vel. Það er hins vegar mjög áhugavert hjá hv. þingmanni þegar hann lýsir því hvernig mætti nota þekkingu sem var hér fyrr þekkt, en ég veit ekki hvort nútímamaðurinn væri til í að fara alla þá leið til baka.