150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Líklega ætti ég að byrja á því að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af plasti sem efni. Kunnandi að meta gamla iðn og gæði eru þau efni sem áður voru notuð í sama tilgangi; leður, viður, málmur, keramik, og þannig mætti lengi telja, miklu meira aðlaðandi efni og vörurnar kannski merkilegri. Ég verð hins vegar að viðurkenna að plast er praktískt og er hluti af framförum mannkyns og hefur átt þátt í því að auka lífsgæði fólks. Meira að segja ég, þrátt fyrir þennan inngang, var lengi hafður að háði og spotti á háskólaárunum fyrir að vera alltaf með plastpoka undir bækurnar mínar en ekki vandaða leðurtösku. En þetta var praktískt. Lengi vel notaðist ég við sama Hagkaupsplastpokann, vó eins og plastpokar flestir rúmlega fimm grömm en burðargetan var ótrúleg. Fimm gramma plastpoki getur hæglega borið tíu kíló. Í fyrndinni þurftu menn að framleiða leirker sem eitt og sér vó kannski fimm kíló til að geta geymt í því fimm kíló af varningi.

Plast er því, þrátt fyrir að vera kannski ekki mjög aðlaðandi efni, mjög praktískt og eins og ég gat um áðan hefur átt stóran þátt í því að auka lífsgæði fólks. En það er praktískt á fleiri vegu en hvað varðar burðargetu því að matvæli sem eru geymd í plasti, t.d. grænmeti, endast miklu lengur en matvæli sem ekki er pakkað í plast. Það var Gurrý sem hélt úti sjónvarpsþáttum um garðyrkju sem útskýrði þetta fyrst fyrir mér í sjónvarpsþætti. Ég hef kannað þetta síðan og þetta reynist alveg rétt. Umhverfisáhrifin af því að banna að pakka matvælum, t.d. grænmeti, inn í plast eru þau að miklu meira magn matvæla fer til spillis og í staðinn þarf að framleiða ný með tilheyrandi umhverfisáhrifum, áburðargjöf, flugi til að skila matvælum á sinn stað, flutningabílum o.s.frv.

Plast er á vissan hátt vinur umhverfisins og menn ættu að fara varlega, ef þeir eru raunverulegir umhverfissinnar, í að banna þetta praktíska efni. Hvað á að gera við plast? Augljóslega ekki að henda því í sjóinn. Það hefur verið undarlegt, finnst mér, að fylgjast með umræðum um plast á Íslandi sem gengur öll út á, eins og svo oft áður, því miður, að líta til ástandsins í öðrum löndum frekar en stöðunnar hjá okkur og ímynda sér að meira og minna allt plast sem er notað hér endi í sjónum. Það er ekki svoleiðis. Eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom aðeins inn á áðan er megnið af plastinu sem endar í hafinu, sem við höfum væntanlega öll miklar áhyggjur af, frá Asíu og Afríku og ekki bara það, heldur úr einungis tíu ám, tíu fljótum, átta þeirra eru í Asíu og sjö í Afríku. Þau skila um 90%, 88–95%, af öllu plasti í hafinu, þessi tíu fljót. Ef okkur er raunverulega umhugað um það að taka á plastmengun í hafi, er þá ekki eðlilegt að byrja á því að líta á rót vandans? Jafnvel þó að ekki ein einasta plastarða færi í hafið nokkurs staðar í Evrópu eða á Vesturlöndum yfir höfuð frá og með deginum í dag hefði það sáralítil áhrif vegna þess að aukningin og fólksfjölgunin á þeim svæðum sem losa mest plast í hafið er svo gríðarleg og það tæki ekki nema eitt, tvö, í mesta lagi þrjú ár, að vera komin aftur á sama stað og raunar upp fyrir það í plastlosun í hafið.

En því miður er þetta mál eins og svo mörg umhverfismál því marki brennt að það gengur út á sýndarmennsku, að virðast vera að gera gagn, og allt of oft er það gert með boðum og bönnum og jafnvel sektum, meira að segja að því marki að það sé bannað að gefa ákveðnar vörur. Ég velti fyrir mér hvert viðhorf Sjálfstæðismanna sé til þessa máls. Ég velti því reyndar fyrir mér í síðasta máli líka því að þeir tjáðu sig ekki þá nema í einni fyrirspurn frá hv. þm. Sigríði Á. Andersen og hafa ekki tekið til máls í þessu máli sem er skilgreint neyslustýringarmál. Það er ekkert verið að reyna að fela það, það kemur bara fram, þetta er neyslustýringarmál. Nú ætlar ríkið að útlista fyrir þér, borgari góður, hvernig þú átt að haga þínu lífi. Sjálfstæðismenn hafa ekki talið ástæðu til að gera athugasemd við það eða ræða málið yfir höfuð.

Auðvitað fer eitthvað af plasti í hafið við Ísland. En á ekki markmið okkar að vera að koma í veg fyrir það? Sjávarútvegurinn, sem hefur verið nefndur í þessari umræðu, hefur náð ótrúlegum árangri í að koma í veg fyrir plastlosun í hafið. Það var ekki gert með hótunum um sektir eða nýjum eftirlitsstofnunum. Það var gert með því að greinin tók sér tak. Nú er losun af plasti í hafið frá íslenskum sjávarútvegi einungis örlítið brot af því sem hún var fyrir ekki svo mörgum árum. Verðum við ekki í umhverfismálunum, ef við erum sammála um að þau séu mikilvægur málaflokkur, að líta til lausna sem virka raunverulega í stað þess að taka upp endalausan straum af Evrópureglugerðum og bæta þar við eftir sérstökum áhuga, hvort sem er ráðherra eða embættismanna, nota tækifærið, ef svo má segja, til að gera reglurnar enn meira íþyngjandi? Nú er það boðað að beðið sé samhæfðra staðla frá evrópskum staðlastofnunum svo við vitum raunverulega hvað við erum að gera með þessu frumvarpi.

Ég hef nefnt það áður í ræðu að við verðum að reyna að líta á umhverfismálin í heildarsamhengi og þar með talið plastnotkun. Ég hef bent á að rannsóknir hafi sýnt að einn bómullarpoki, burðarpoki, mengi eða losi gróðurhúsalofttegundir sem nemur 173 plastpokum og það er þá háð því að plastpokinn sé bara notaðar einu sinni. Eins og ég nefndi áðan hef ég notað mína plastpoka vel og oft enda þeir í því hlutverki að halda utan um sorp til að skila því á sorphauga þannig að það fjúki ekki út í sjó. Reyndar hef ég lent í vandræðum með umhverfisvæna poka sem eru framleiddir úr maís eða einhverju slíku. Ég veit ekki hvort ég á að rekja þá sögu, en einhvern tímann þegar ég var einn heima dögum saman þá borðaði ég yfirleitt hér í þinginu en ekki heima. Það hlóðst því ekki hratt í ruslapokann heima en ég fékk mér alltaf kaffi á morgnana og á kvöldin og henti kaffikorginum í pokann. Og þegar þetta var farið að mygla og að því kom að tæma ruslið þá lyfti ég pokanum og botninn og allt dótið var bara eftir því að pokinn datt í sundur. Það var eins gott að sá poki var ekki kominn á haugana og losnaði í sundur þar og allt hefði fokið út í sjó. Við þurfum að líta á heildarmyndina, heildaráhrifin af þeim ákvörðunum sem við tökum þegar við reynum að bregðast við umhverfisvanda.

Það var áhugavert að heyra í ræðu Bergþórs Ólasonar áðan hversu vel menn hefðu staðið að því að kyngreina frumvarpið og kyngreina plastnotkun. Þetta kveikti á ákveðnum hugrenningatengslum hjá mér vegna þess að ég hef einmitt haft áhyggjur af plasti, ákveðnum plastefnum, hvað varðar áhrif á kyn. Það eru t.d. ákveðnar tegundir af filmuplasti sem geta losað estrógen og kenningar hafa verið settar fram um að það geti haft mjög veruleg áhrif á frjósemi manna. Svona hluti þarf að skoða og leitast þá við, ef menn vilja beita bönnum sem getur þurft í ákveðnum tilvikum, að banna notkun skaðlegra efna í plasti. Það sama á við um efni sem valda eiturmengun þegar plast er brennt. En hvað er best að gera við plast umhverfislega séð? Ótrúlegt en satt, það er að kveikja í því, brenna plastið á umhverfisvænan hátt til að framleiða orku. Nú hafa vísindamenn fundið upp leið til að brenna plast á það umhverfisvænan hátt að það losar minna af gróðurhúsalofttegundum og mengun heldur en brennsla á náttúrulegu gasi. Hvað er plast? Það er unnið úr olíu. Besta leiðin til að takast á við plastvanda heimsins er að tryggja að plastið skili sér allt til endurvinnslu, sérstaklega til brennslu þar sem það nýtist þá til að framleiða umhverfisvæna orku. Við þingmenn Miðflokksins höfum einmitt lagt fram tillögur um byggingu umhverfisvænnar brennslustöðvar.

Menn hafa nefnt ýmis önnur úrræði hér, gler til að mynda, sem er vissulega áþekk tegund og plast, en hefur hins vegar margfalt meiri umhverfisáhrif en plastið. Og alltaf komum við að því sama. Þegar ríkið leggur upp með aðgerðir til að hafa áhrif í umhverfismálum, ég tala nú ekki um þegar það eru íþyngjandi neyslustýringaraðgerðir eins og þessar, þá þarf að líta á heildarmyndina. Ég er alveg viss um að þeir þingmenn sem hafa kynnt sér þessi mál geta tekið undir mikilvægi þess og þá er ég kannski sérstaklega að vísa til hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar sem að eigin mati hefur meira vit á þessum málum en allir aðrir þingmenn, a.m.k. meira vit en ég og hefur þar af leiðandi kynnt sér þetta betur en flestir, geri ég ráð fyrir. Ég vænti þess að þegar frumvarpið fer til vinnslu muni menn, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson og aðrir, reyna að laga málið þannig að það virki betur en það lítur út núna og litið sé til heildaráhrifanna af þeim íþyngjandi reglum sem verið er að boða hér. Ég efast ekki um að málið muni fá góða meðferð í umhverfis- og samgöngunefnd og treysti á að það taki þar miklum breytingum til bóta.