150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska Samfylkingarfólki til hamingju með daginn en að því loknu ætla ég að víkja að því að í vetur hefur svo sannarlega reynt á samvinnu og útsjónarsemi okkar allra við að vera öll almannavarnir. Í óvissu dagsins mun áfram reyna á samvinnu og útsjónarsemi við áframhaldandi almannavarnir við úrvinnslu og afleiðingar Covid-19 við að skapa samfélaginu tekjur og við að tryggja velferð allra íbúa.

Ég vil sérstaklega gera hér að umtalsefni félagslegar aðgerðir. Í tillögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi eru 5,7 milljarðar kr. ætlaðir til að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Komið verði til móts við fjölskyldur langveikra eða fatlaðra barna sem hafa þurft að auka umönnun heima fyrir. Fjármagn er ætlað til stuðnings við tómstundir barna af tekjulágum heimilum til að tryggja tækifæri þeirra til íþrótta- og frístundastarfs og átak í náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur og námsmenn er í vinnslu.

Þá er bætt í aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur. Þessi áhersla er því gríðarlega mikilvæg. Félagsleg verkefni eru flest, ef ekki öll, þess eðlis að þau verða ekki leyst nema í víðtæku samstarfi milli ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Sem dæmi má nefna að til að tryggja þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi þarf ríkið að miðla fjármagni til sveitarfélaga sem geta þá komið þeim til þarfra verka í samvinnu við stjórnir íþróttafélaganna, þjálfara og tengiliði foreldra. Börn ættu á hættu að detta út úr tómstundastarfi ef ekkert væri að gert. Vinnum gegn því, (Forseti hringir.) nýtum samtakamáttinn í kringum íþróttafélögin, tækifærin til viðspyrnu liggja víða.