150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Við fengum á fund okkar hina ýmsu aðila sem eru taldir upp í nefndarálitinu og ég ætla ekki að lesa þá alla saman upp. Margir skiluðu þess utan umsögnum en komu ekki á fund.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um stöðu uppljóstrara. Markmiðið er að á Íslandi gildi skýr löggjöf um vernd uppljóstrara sem taki mið af ábendingum alþjóðastofnana og fordæmum þeirra nágrannaríkja sem fela í sér bestu framkvæmdina á þessu sviði. Frumvarpið er liður í að skapa Íslandi afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis í samræmi við efni þingsályktunar nr. 23/138 frá 16. júní 2010.

Rétt er að rifja upp að í þessu frumvarpi eru tvær tegundir af uppljóstrunum sem er verið að vinna með, þ.e. innri og ytri uppljóstrun, og auðvitað er greint þar á milli. Miðað er við að hin síðarnefnda, þ.e. ytri uppljóstrun, sé jafnan ekki heimil nema hin fyrrnefnda hafi fyrst verið reynd til þrautar. Innri uppljóstrun felur í sér að þrátt fyrir tilmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu sé starfsmanni sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns heimilt að miðla slíkum upplýsingum og gögnum í góðri trú til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi, t.d. til næsta yfirmanns. Er slíkum aðila þá skylt að stuðla að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi. Gert er ráð fyrir að í tilviki opinberra starfsmanna sé ekki einungis fyrir hendi heimild til miðlunar í framangreinda veru heldur skylda.

Ytri uppljóstrun felur í sér að starfsmanni sem viðhaft hefur innri uppljóstrun án þess að það hafi leitt til fullnægjandi viðbragða sé heimilt í góðri trú að miðla umræddum upplýsingum eða gögnum til utanaðkomandi aðila, þar á meðal fjölmiðla, svo fremi sem hann hefur réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem samkvæmt refsiramma gæti varðað fangelsisrefsingu. Hið sama á við ef slík miðlun telst að öðru leyti í þágu svo brýnna almannahagsmuna að hagsmunir vinnuveitanda eða annarra verði að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað.

Virðulegi forseti. Mestur tími nefndarinnar fór í skilyrðið um góða trú. Við meðferð málsins fjallaði nefndin töluvert um þetta skilyrði, þ.e. að starfsmaður hafi verið í góðri trú og merkingu þess. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin gildi um starfsmenn sem greina í góðri trú frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda. Fram komu í nefndinni nokkuð margar ábendingar frá umsagnaraðilum um að af umfjöllun um hugtakið „góð trú“ í greinargerð frumvarpsins mætti ráða að hvatir uppljóstrara skiptu máli varðandi hvort hann skyldi njóta verndar en að það væri hins vegar ekki hluti af almennri skýringu hugtaksins og gæti valdið nokkrum vandkvæðum.

Í umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins í greinargerð kemur skýrlega fram að í hugtakinu „góð trú“ felist í meginatriðum að starfsmaður hafi haft góða ástæðu til að telja að þær upplýsingar sem hann miðlar séu sannar en jafnframt hafi hann talið í þágu almennings að miðla þeim og að hann hafi ekki átt annan kost til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Þar kemur einnig fram að starfsmenn sem miðla vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum eða upplýsingum um smávægileg frávik í þeim tilgangi að koma höggi á vinnuveitendur sína eða aðra njóta því ekki verndar samkvæmt frumvarpinu. Fyrir nefndinni kom fram að hér skipti mestu máli að ekki geti verið um góða trú að ræða þegar vísvitandi væri miðlað röngum eða villandi upplýsingum eða upplýsingum um smávægileg frávik. Hafi tilgangurinn verið að koma höggi á vinnuveitanda leiði sú skýring ein og sér ekki af sér að slíkt komi í veg fyrir að starfsmaðurinn njóti verndar.

Þá kom einnig fram að tilvísun í greinargerð til niðurstöðu í máli Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2008 í almennum athugasemdum við frumvarpið virðist hafa valdið misskilningi, að umfjöllunin um skilyrði um góða trú í þeim kafla væri einungis endursögn á niðurstöðu dómstólsins sem væri ekki í samræmi við efnisatriði frumvarpsins um skilyrðin. Þá sé niðurstaða dómstólsins ekki heldur í samræmi við niðurstöður margra annarra alþjóðastofnana eða löggjöf nágrannaríkja um hugtakið góða trú eins og það hefði þróast frá þeim tíma er dómurinn féll.

Fram kom að skilyrði um góða trú væri mikilvægt verkfæri til að tryggja að starfsmenn gætu ekki borið fyrir sig ákvæði um uppljóstraravernd til að komast hjá ábyrgð vegna miðlunar trúnaðarupplýsinga af vinnustað sem eiga lítið eða ekkert erindi við almenning. Lagt væri til að skilyrðið væri matskennt þannig að meta þyrfti í hverju tilviki fyrir sig hvort starfsmaður gæti talist í góðri trú miðað við atvik og aðstæður þegar miðlunin átti sér stað. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur nauðsynlegt að skýringin á hugtakinu í frumvarpinu sé í samræmi við þann skilning sem nú er lagður til grundvallar í alþjóðasamningum og löggjöf nágrannaríkja. Meiri hlutinn áréttar því að framangreindan kjarna hugtaksins „góð trú“ beri að leggja til grundvallar við túlkun laganna, þ.e. að starfsmaður hafi haft góða ástæðu til að telja þær upplýsingar sem hann miðlar sannar en jafnframt að hann hafi talið í þágu almennings að miðla þeim og að hann hafi ekki átt annan kost til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Meiri hlutinn leggur hins vegar til breytingu á orðaröð í 1. málslið 1. gr. þannig að lögin gildi um starfsmenn sem greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfi vinnuveitenda þeirra. Meiri hlutinn telur að með þeirri breytingu sé áherslan skýrari á að góða trúin varði hina brotlegu eða ámælisverðu háttsemi.

Virðulegur forseti. Við ræddum líka töluvert við meðferð þessa máls um hugtakið „starfsmaður“. Fram komu sjónarmið fyrir nefndinni um að skýra þyrfti þetta hugtak rúmt þannig að verndin næði til mun breiðari hóps. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hugtakið beri að skýra rúmt og að það geti náð til sjálfstætt starfandi verktaka. Fram kom að ný tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2019 um uppljóstraravernd virðist ná yfir breiðari hóp en lagt er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og nauðsyn þess að undir hugtakið falli fleiri hópar en ráðnir starfsmenn og verktakar og leggur því til að skýringu á hugtakinu „starfsmaður“ verði bætt við í 1. gr. frumvarpsins.

Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri skuli atvinnurekandi í samráði við starfsmenn setja reglur um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að samkvæmt lögum væru fyrirtæki flokkuð eftir fjórum mælikvörðum, þ.e. fjölda ársverka, fjölda starfsmanna, fjölda starfsmanna að jafnaði og fjölda starfsmanna að jafnaði á ársgrundvelli. Því væri ekki skýrt við hvaða skilgreiningu á fjölda starfsmanna ætti að miða. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingu á lögunum þess efnis að miða skuli við fjölda starfsmanna að jafnaði á ársgrundvelli.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021. Vinnueftirlitið vakti hins vegar athygli á því í umsögn sinni að í a-lið 2. töluliðar 7. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980. Þær breytingar fela í sér tæknilegar lagfæringar sem brýnt er að taki gildi sem fyrst til að tryggja þagnarskyldu starfsmanna Vinnueftirlitsins vegna umkvartana sem berast stofnuninni og þannig tryggja trúnað við þá sem leita til stofnunarinnar. Meiri hlutinn leggur því til að a-liður 2. töluliðar 7. gr. öðlist þegar gildi.

Meiri hlutinn leggur svo til í fimm liðum og fleiri undirliðum breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegar að mestu leyti. Ég ætla ekki að fara nánar yfir þær en þær má finna í nefndarálitinu.

Undir þetta rita hv. þingmenn sú sem hér stendur, Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.