150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[15:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum alveg sammála um þetta. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði eitthvað á þessa leið: Ég geri ráð fyrir því að viðkomandi starfsmaður sé að segja satt.

Það er einmitt skilgreiningin á góðri trú. Það er einmitt þannig sem ég skil góða trú, að viðkomandi telji sig vera að segja sannleikann og telji í öðru lagi, eins og hv. þingmaður vék að, að þessar upplýsingar eigi erindi við almenning, þær verði að koma fram á opinberum vettvangi og eigi erindi við almenning svo almenningur geti þá myndað sér skoðun á háttsemi viðkomandi fyrirtækis sem hafi þá einhverjar afleiðingar fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þar erum við komin með skilgreiningu á almannahag, þ.e. þetta tvennt, að viðkomandi starfsmaður standi í þeirri meiningu að þessar upplýsingar séu sannar og að þessar upplýsingar eigi erindi við almenning.