150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Eiginlega má kalla þetta hið stóra vegtollamál. Ég skal bara taka það strax fram að ég er sko langt í frá á móti því að vegir séu lagfærðir og þetta eru frábærar framkvæmdir og mikil þörf á þeim og ég mótmæli þeim ekki á neinn hátt, sérstaklega ekki vegna umferðaröryggis, vegna þess að við vitum hvaða afleiðingar það hefur og hversu dýrt það er fyrir þjóðfélagið að umferðarslys verði.

En mörgum spurningum er ósvarað við þessar framkvæmdir og við getum bara byrjað á því að taka það sem frá var horfið síðast og sem lætur mig eiginlega verða svolítið orðlausan, það er Axarvegurinn. Samkvæmt frumvarpinu á sú framkvæmd að kosta 4 milljarða, 4.000 milljónir á núverandi verðlagi. Þetta á að greiðast upp á 30 árum. Ef við reiknum þetta, þetta er einfalt reikningsdæmi, og ef við deilum þessum tekjum niður, þá erum við að tala um 120 milljónir, á tíu árum 1,2 milljarðar. Þetta eru gífurlegar upphæðir. Þetta er svo fljótt að telja og ég náði bara ekki að reikna það út en miðað við 200–300 bíla og ef við erum bjartsýn og segjum að 500–1.000 bílar færu þennan veg, þá þyrfti aldeilis að borga vegtoll til að standa undir þeim kostnaði. Ef þeir bílar sem fara þarna um eiga að borga og standa undir þessum kostnaði þá held ég að það sé alveg á hreinu að flestir reikni það út að ódýrara er að fara hinn kaflann þó að hann sé um 62 km lengri.

Síðan er auðvitað það í þessu dæmi hvað kostar þá að keyra hvern kílómetra vegna þess að það er bara orðið reikningsdæmi hvort fólk er á bensínbíl, dísilbíl eða rafmagnsbíl og þess vegna er orðið löngu tímabært að við setjum skatta á bifreiðar eftir kílómetragjaldi og síðan kemur líka þyngd, af því að við vitum að hún er misjöfn. Þyngd bílanna hefur áhrif á slit vega og við vitum að þyngstu bílarnir, vöruflutningabílar og aðrir, slíta vegunum mest og þar af leiðandi ættu þeir auðvitað að borga mest, þannig ætti það að vera. En ég er ánægður með það sem kom fram hérna, en jafnframt óttast ég að hægt sé að fela einkaaðila innheimtugjaldið og ég vona heitt og innilega að við förum bara þá leið sem hæstv. ráðherra benti á og Norðmenn hafa farið, að ríkið sjái um þetta og þetta verði eins kostnaðarlítið og hægt er og þá auðvitað samtengt öllu, einn aðili sjái um þetta.

En síðan er annað í þessu sem við verðum líka að líta á. Eins og ég hef oft bent á áður og hefur oft blöskrað í vegaframkvæmdum okkar og blöskrar eiginlega langmest, t.d. á sínum tíma þegar ég fór norður á Strandir, það er þessi bútasaumsleið í vegakerfinu, þar sem verið er að koma með tæki og tól, leggja einhverja 10–15 km og svo kemur malarvegur næstu 10–15 km og svo kemur aftur svona bútasaumur, þetta er auðvitað dýrt og heyrir vonandi sögunni til. Því væri örugglega spurning hvort og hvernig þetta verði boðið út. Verður þetta boðið út í heild sinni eða að hluta til til að ná út sem hagkvæmustu verði fyrir þessa framkvæmd?

Síðan er annað í þessu og hefur komið fram að það verði um sex gjaldskyld hlið á veginum, en eins og bent hefur verið á sé hægt að velja aðrar leiðir og til að taka dæmi tek ég Vaðlaheiðargöngin eins og þau eru núna. Ökumaður sem kemur að Vaðlaheiðargöngunum og er bara í sumarleyfi á rafmagnsbíl, hann fer ekki gegnum göngin ef hann er ekki að flýta sér. Það er mun hagkvæmara fyrir hann að fara fram hjá og þess vegna spyr ég: Í hversu mörgum tilfellum munum við lenda í svona aðstæðum?

Þá er líka oft spurning sem við höfum verið að benda á, og ég óttast líka rosalega mikið, það er þessi kostnaðaráætlun, að hún fari úr böndum, vegna þess að reiknað er með því í öllum tilfellum þar sem ýmislegt er tekið fyrir — Ölfusárbrú, Hornafjarðarfljót, Axarvegur, Hvalfjörðurinn — að alls staðar er verið að reikna með mínus tíu, plús 20% og ég held að 20% framúrkeyrsla sé ekki ofáætluð vegna þess að við vitum að það geta komið upp óvæntir hlutir við svona framkvæmdir og við höfum vítin til varnaðar. Við höfum Vaðlaheiðargöngin sem fyrirmynd þar hvernig hlutirnir geta gjörsamlega farið úr böndum og kostnaðurinn farið langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

Síðan er það gjaldtakan. Eins og ég hef bent á óttast ég að þetta gæti orðið mjög dýrt fyrir þá sem eru á lægsta lífeyri og lægstu launum vegna þess að ef þetta er ákveðin krónutala á hvern bíl þá segir það sig sjálft að á því hærri launum sem fólk er því auðveldara og ódýrara er fyrir það að fara þessa leið, finnur miklu minna fyrir því, getur fundið allt að því þrisvar, fjórum, fimm sinnum minna fyrir því í því samhengi launalega séð. Ég hef líka bent á að auðvitað gildir þetta einnig, eins og við vitum, um sektargreiðslur. Það er mjög skrýtið ef við horfum á sektargreiðslur eins og þær hafa verið, og er í þessu frumvarpi, að ef fólk fer í gegnum gjaldskylt hlið og borgar ekki þá er hægt að gera ökutæki þess upptækt og taka það bara af fólki og selja upp í skuld. Þannig að þegar fólk lendir í þeirri aðstöðu að þurfa að borga sektir, bæði umferðarsektir og aðrar sektir, þá skipta tekjurnar rosalegu máli. Og þess vegna er það alveg ótrúlega ósanngjarnt í sjálfu sér þegar við setjum þetta þannig upp að allir borgi til dæmis sömu sektina óháð launum. Við vitum að Finnar breyttu þessu og tilgangurinn með sektargreiðslum og sektum er fælingarmátturinn, það segir sig sjálft að það fælir þá mest sem eru á lægstu launum en minnst þá sem eru á hæstu launum að brjóta af sér vegna þess að hlutfallslega er það mun auðveldara fjárhagslega fyrir þá sem eru mjög vel efnaðir.

En ef við horfum á hvað verið er að tala um, eins og Sundabrautina, þá er hún búin að vera á dagskrá svo lengi að maður sér hana ekki einu sinni í hillingum, maður hefur einhvern veginn enga trú á að hún sé að koma. Það er einhvern veginn eins og hún sé — og maður hefur auðvitað þá tilfinningu út frá stöðunni í vegamálum í borginni að mesti óvinur þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg séu bifreiðar og þá virðist ekki skipta máli hvernig bifreiðar það eru vegna þess að nú koma alltaf hagkvæmari og hagkvæmari bifreiðar, rafmagnsbílar og annað. Það virðist ekki breyta neinu. Það virðist vera stefnan að loka vegum frekar en að auðvelda umferð til og frá borginni. Ég tel og er mjög sammála því að það sé löngu tímabært að taka hringveginn norðaustur fyrir Selfoss og brú yfir Ölfusá. Hún er löngu komin á tíma, sú brú, og löngu tímabært að fara í þá framkvæmd og einnig við Hornafjarðarfljót og tvöföldun Hvalfjarðarganganna. Þetta er bara hið besta mál.

En ég hef miklar áhyggjur af kostnaðinum og hvað varðar eðlilegan arð af fjárfestingum, það er búið að tryggja að ríkisábyrgð er á þessu og ég óttast að svona hlutir, þ.e. kostnaðurinn fari úr öllum böndum og það verði því miður ekki sett þak á fjárhæð einstakra veggjalda og heildaráhrif af innheimtu veggjalda á því tímabili sem hér er heimilt að innheimta gjöldin, að það standi ekki undir þessu. Þá verður bara spurning um, eins og ég sagði með Axarveg, kostnað við hann, hvort það eigi í eðli sínu að vera inni í þessu. Ég held að það sé framkvæmd sem það lítil umferð er um að ríkið ætti bara að sjá um hana, hún ætti ekkert að fara í þennan farveg. Ég held að í þennan farveg eigi stærstu framkvæmdirnar að fara; Hvalfjarðargöngin, Ölfusárbrú, Hornafjarðarbrúin jafnvel og jafnvel hringvegur um Mýrdal og jarðgöng um Reynisfjall og títtnefnd Sundabraut þegar hún verður ákveðin. Ég held að við eigum eftir að rífast um hvort það verða göng eða brú eða hvað þar verður. Maður er eiginlega farinn að missa trúna á því að eitthvað bitastætt komi út úr því. En ég vona samt heitt og innilega að það verði og ég vona líka að hægt verði að finna þessum framkvæmdum farveg og að þær geta farið af stað vegna þess að það er nauðsynlegt.

En eins og ég segi, við verðum að passa sérstaklega upp á það að þeir sem minnst hafa geti nýtt sér þetta, að þetta sé ekki bara fyrir þá sem eru efnameiri til að komast þarna um og við verðum líka að sjá til þess að innheimtan sé sanngjörn og inn í það komi afsláttargjöld og þá væri líka hægt að tengja alla þessa staði og þeir sem aka mest um þá staði fái þá hlutfallslega bestu gjöld. En þetta verður vandmeðfarið og ég vona heitt og innilega að það verði horft í öll horn og hlutirnir settir í samhengi.