150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki hissa á því, það er rangt með farið hjá hv. þingmanni ef hann endursegir orð mín þannig að ég sé hissa á því að hv. þingmaður hafi nefnt mat á umhverfisáhrifum, alls ekki. Ég var hissa á því að mér fannst hv. þingmaður tala eins og hér yrði ekki mat á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda. Auðvitað varð ég hissa á því, því að það er fráleitt. Slíkt mat er ekki að finna í lagafrumvarpi. Slíkt mat verður aldrei að finna í lagafrumvarpi, að sjálft matið á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda sé að finna þar, því að um það eigum við lög sem eru í endurskoðun núna. Ég leiði reyndar starfshóp þar um og tekst vonandi vel að gera þau lög enn betri. Þar fer umhverfismatið fram, forseti, en ekki hvað? Annars værum við hér með nýlegt umhverfismat á Suðurnesjalínu tvö. Það er ansi umfangsmikið. Er hv. þingmaður í alvöru að tala um að slíkt umhverfismat eigi að fylgja hverri og einni einstöku framkvæmd sem heimild er veitt hér til að fara aðra leið við að semja um fjármagn? Það væri dálítið sérkennilegt ef svo væri. Ég held að svo sé ekki, forseti. Ég held að hv. þingmaður sé vísvitandi að kasta ryki í augu þeirra sem mögulega fylgjast með þessari umræðu. Ég held að hv. þingmaður viti betur og kunni vel sem fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra hvernig það allt saman fer fram. Sanngjarnt væri, ef við viljum vera sanngjörn í því hvernig við segjum frá hlutunum, að tala um að að sjálfsögðu fari mat á umhverfisáhrifum fram. Við erum að reyna að styrkja það mat ef eitthvað er. En ég hjó eftir því, forseti, að hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni, einu beinu spurningunni: Er hv. þingmaður á móti þeim samningi sem sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu við ríkið?