150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

710. mál
[22:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kom hér upp til að fagna framlagningu þessa frumvarps. Ég er mjög ánægð með að loksins skuli brugðist við þeirri hræðilegu stöðu að hægt sé að setja lögbann á umfjöllun fjölmiðils um mikilvæg málefni er varða almenning og að málsmeðferð í þeim geti tekið meira en ár. Það er ómöguleg staða, virðulegi forseti, og það er með ólíkindum að hún hafi fengið að viðgangast í allan þennan tíma. Við vitum það að tveimur vikum fyrir síðustu alþingiskosningar 2017 var sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar um fjármálagjörninga þáverandi forsætisráðherra, og þetta var gert rétt fyrir kosningar. Nú hefur héraðsdómur komist að því að þetta hafi haft eða hafi a.m.k. getað haft veruleg áhrif á kosningarnar sjálfar, sem er gríðarlega alvarlegt lýðræðismál og þess vegna fannst mér mjög mikilvægt að bregðast strax við þessari stöðu og koma í veg fyrir að hún geti endurtekið sig. En þá forgangsröðun var því miður ekki að finna hjá forsætisráðherra sem skipaði sérstaka nefnd, sem auðvitað var mjög ánægjulegt og hennar starf mjög gott, en í skipunarbréfinu var skýrt tekið fram um að viðbrögð við þessu hörmulega ástandi skyldu ekki fara fram fyrr en á seinni hluta vinnutíma nefndarinnar þótt að við byggjum við það í lýðræðisríki að lögbann hefði verið sett á umfjöllun fjölmiðla rétt fyrir kosningar um mál sem varðaði forsætisráðherra landsins á þeim tíma. Það kom okkur reyndar á válista hjá Evrópuráðinu sem benti á þessa skelfilegu stöðu, á lista yfir öryggi blaðamanna og upplýsingar um ríkið því tengdar þannig að það er ekki beinlínis hægt sé að segja að þetta hafi verið smámál. Eftir því var tekið, enda gríðarlega alvarlegt mál, þannig að ég vildi árétta að það var mjög mikilvægt að bregðast við miklu fyrr. Ég tel það ákveðna lukku að sýslumaður hafi ekki hent sér í fleiri lögbannsgerðir á þessu tímabili en það hefði getað gerst og mér finnst furðulegt að það sé ekki búið að ganga frá þessu fyrr.

Ég vil þess vegna nefna frumvarp sem ég nefndi líka í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra, sem ég lagði fram ásamt fleiri hv. þingmönnum um að færa ákvörðun um beitingu lögbanns á umfjöllun fjölmiðla úr höndum sýslumanns og yfir í hendur dómstóla. Hæstv. dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kom að því máli áðan að það hafi ekki komið til tals vegna þess að þá væri um slíka grundvallarbreytingu að ræða að það hefði ekki komið til greina. Ég vil reyndar meina að miðað við framgöngu sýslumanns í þessu máli var fullt tilefni til að gera grundvallarbreytingu á þessu fyrirkomulagi en ég treysti því að þetta mál verði a.m.k. til þess að letja hagsmunaaðila eins og slitabú Glitnis frá því að falast eftir lögbanni á fjölmiðla. Ég vonast einnig til að þetta verði til þess að fjölmiðlar njóti betri verndar almennt gagnvart svona tilhæfulausum lögbannskröfum.

Í því samhengi vil ég minnast á tvö mál sem Píratar hafa nú þegar mælt fyrir á þessu þingi og snúa að annars konar vernd fjölmiðla gegn ásókn fjársterkra aðila, gegn ásókn stórfyrirtækja gagnvart tjáningarfrelsi þeirra og það varðar rökstuðning við ákvarðanir um málskostnað. Við erum sem sagt að leggja til að dómstólar þurfi að rökstyðja ákvarðanir sínar þegar þeir dæma um málskostnað. Þetta er gert vegna þess að endurtekið lenda fjölmiðlar í því að þeir sitji uppi með himinháa reikninga eftir að þeir hafa borið sigur úr býtum í málsókn gegn þeim vegna meiðyrða t.d. Einhver fer í mál við fjölmiðil og sakar hann um meiðyrði og þrátt fyrir að fjölmiðillinn vinni málið á grundvelli tjáningarfrelsisins þá situr sá hinn sami fjölmiðill uppi með himinháa reikninga lögmanns vegna þess að lögmannskostnaði er jafnvel skipt jafnt eða a.m.k. fellur ekki að öllu leyti á þann sem tapaði málinu eins og er almenn réttarvenja. Af þeim sökum teljum við mikilvægt að rökstyðja þurfi málskostnaðarákvarðanir til að það komi skýrt fram hvaða hvatar liggi að baki því að láta fjölmiðla greiða fyrir málskostnað í máli sem þeir unnu að öllu leyti.

Á hinn bóginn höfum við mál inni sem lætur heldur ekki endilega fara mikið fyrir sér en er samt sem áður mjög mikilvægt þegar kemur að jafnræði aðila í einmitt meiðyrðamálum. Það snýr að þeirri upphæð sem þarf til þess að fá sjálfkrafa kærurétt til æðra dómstigs. Eins og fyrirkomulagið er núna á kærandi alltaf miklu auðveldara með að fá neikvæðri niðurstöðu áfrýjað til æðra dómstóls en sá sem er kærður. Ef viðkomandi heimtar milljónir í skaðabætur í meiðyrðamáli er það alltaf nóg til þess að komast til æðra stjórnvalds en því er ekki alltaf öfugt farið. Við leggjum til breytingar þar á. Ég vildi bara minna á þetta í þessu samhengi vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að fjölmiðlar standi sterkir að velli þegar kemur að málsóknum og lögbannskröfum fjársterkra aðila sem vilja ekki að þeir sinni hlutverki sínu.

Ætli ég láti þessu ekki þar með lokið. Ég er ánægð með þetta frumvarp en ég hefði kannski viljað sjá aðeins skýrari línur um hversu hratt svona mál geta gengið fyrir sig og ég hefði haldið að dómstólar gætu afgreitt þetta töluvert hraðar ef þetta færi beint til þeirra en get samt sem áður alveg fellt mig við þessa nálgun.