150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísaði í skýrslu um lögreglumál þar sem fjallað er um einstaka mál og einhver mál sem hafa vissulega komið upp þar sem einstaklingar hafa verið að sækja um í verndarkerfinu sem ég er hér að tala um breytingar á. Ekki er sérstaklega tekið á því frumvarpinu eða í útlendingalögunum, enda er hér verið að tala um lögreglumál, vinnumarkaðsmál og fleira.

Allir sem eru í erfiðri stöðu, hvort sem það eru aðilar sem koma hingað og óska eftir hæli eða aðrir, eiga rétt á því að fá svar hratt og örugglega. Það er bætt meðferð. Það bætir stöðu þessara aðila að geta fengið svar hraðar en nú er raunin, hvort sem svarið er jákvætt eða neikvætt, því að það skiptir máli upp á aðlögun innan samfélagsins. Það skiptir máli að þurfa ekki að lifa lengur í óvissu, að vera ekki þátttakandi í einhverju sem hv. þingmaður nefnir. Það felst líka mikil mannúð í því að byggja kerfið okkar þannig upp að forgangsraðað sé fyrir þá sem eru í raunverulegri neyð, koma frá löndum þar sem þeir flýja ofsóknir og ómannúðlega meðferð og að þeir sem eru í þeirri stöðu fái jákvætt svar hratt og örugglega til að geta aðlagast samfélaginu fyrr og eiga þess betri kost en nú er þar sem stjórnsýslan ræður orðið illa við afgreiðslu þeirra fjölda mála, m.a. vegna tegunda þeirra mála sem eru í málaflokknum í dag.