útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Virðulegur forseti. Varðandi þá þróun sem hv. þingmaður spyr um sýna þær tölur sem ég er með mikla fjölgun í þeim hópi þar sem fólk hefur verið með vernd annars staðar og í þeim hópi hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár en það hefur líka fjölgað mikið í hópi þeirra, eins og ég kom inn á í ræðu minni, sem eru í raunverulegri þörf fyrir vernd og eru m.a. að flýja ofsóknir í heimalandi og hafa fengið jákvæð svör hér og vernd. Það sést sérstaklega í tölum fyrir 2019, þá eru yfir 500 veitingar á alþjóðlegri vernd á því ári.
Ég ítreka aftur ákvæði 42. gr. laganna, sem byggist á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, við erum með ákvæði í lögunum um að ekki megi endursenda fólk til baka á grundvelli þess ákvæðis ef um ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð er að ræða. Frá því er ekki vikið. Síðan hafa verið gerðar breytingar eftir samráð, m.a. við Rauða kross Íslands og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, fallið frá einhverjum breytingum og einhver ákvæði í frumvarpinu löguð eftir þær athugasemdir og tillögur, einmitt m.a. frá Rauða krossinum.
Af hverju kemur þetta frumvarp núna? Af því að fjöldinn er orðinn þannig og tíminn sem við erum að bjóða upp á í afgreiðslu er óásættanlegur. Þá eru einnig ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum skuldbundið okkur að vera löngu búin að innleiða hér á landi, eins og ég nefndi áðan um brottvísunartilskipunina og breytingar vegna Schengen, og það er m.a. þess vegna sem frumvarpið er fram komið.