150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, verndarmálum hefur fjölgað síðustu ár því að þau voru ekki til fyrir þremur árum. En síðustu mánuðina 2019 fækkaði þeim. Miðað við þær tölur sem birtar eru á vef Útlendingastofnunar var niðurstaða afgreiddra mála sem flokkuðust sem verndarmál um tíu fyrir hvern mánuð í lok árs 2019. Ég teiknaði það upp í töflu sem ég skal bara skilja eftir í púltinu fyrir ráðherrann að skoða í seinna andsvari sínu.

Nú var ráðherrann á óformlegum fundi ráðherra dómsmála í Evrópu í síðustu viku þar sem var m.a. fjallað um langtímasýn í málefnum flóttafólks. Við þekkjum það nú þegar einn forveri hennar fór þangað og greindi frá efasemdum Íslands gagnvart aukinni samábyrgð á meðhöndlun flóttafólks. Mig langar að spyrja hvort sú aukna samábyrgð sem Ísland sýnir á tímum Covid sé tímabundið (Forseti hringir.) fráhvarf frá fyrri stefnu eða hvort við megum eiga von á því að samábyrgð verði sýnd í verki varanlega héðan í frá.