150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á mikilvægi þess að draga úr atvinnuleysi sem er í sögulegu hámarki um þessar mundir, og hér skal tekið heils hugar undir það. Í því sambandi vil ég koma aðeins inn á tryggingagjaldið. Eins og við þekkjum er gjaldið reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun því hærri fjárhæð þarf að greiða í tryggingagjald og því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er því dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið. Gjaldið dregur þannig úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi.

Við erum í þeim aðstæðum að það munar um hvert einasta starf og störf verða ekki til af sjálfu sér, við þekkjum það, og stjórnvöld verða því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr atvinnuleysi eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á.

Nú er það svo að Miðflokkurinn kemur til með að leggja fram breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið þess efnis að fella tryggingagjaldið niður fram að áramótum. Við höfum rökstutt að það sé ekki eins kostnaðarsamt og margir halda. Kemur það til greina af hálfu þingmannsins að lækka tryggingagjaldið tímabundið eða fella það niður tímabundið til að reyna að draga úr því að fleiri missi vinnuna og jafnvel að hægt sé að fjölga störfum, fjölga starfsmönnum?