150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[21:56]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er alls ekki hugsunin á bak við þetta, og það er áhugavert að hv. þingmaður sjái það út með því að skoða textann, að hlutirnir verði með öðrum hætti en ef sendiherra væri skipaður og færi á póst, eins og það er kallað, að það yrði með öðrum hætti en almennt gerist. Það er ekki hugsunin á bak við þetta. Hv. þingmaður vísaði í orðalagið þar sem talað er um sérstakan erindreka og það er nokkuð sem hefur aðeins verið notað í utanríkisþjónustunni en þó ekki mikið, það er meira notað í öðrum löndum. Oft og tíðum eru þá fengnir aðilar sem hafa ekki verið í utanríkisþjónustunni en hafa einhverja þá reynslu sem getur nýst í sérstökum erindagjörðum, eins og nafnið gefur til kynna. Menn geta þá verið að sinna afmörkuðum verkefnum á alþjóðavettvangi, og þá oft innan alþjóðastofnana með samningum þar um, til að fylgja eftir því sem snýr að ákveðnum þáttum heilbrigðismála, svo að eitthvert dæmi sé tekið. Það þarf alltaf að afmarka það. Menn geta ekki bara sent einhvern sérstakan erindreka og sagt við viðkomandi: Þú ert sérstakur erindreki og gangi þér vel. Það verður alltaf að afmarka hvert verkefnið er og hvert markmiðið er með slíkri skipan og hvað viðkomandi einstaklingur á að gera. Ég nefni þetta sérstaklega af því ég þekki dæmi um sérstaka erindreka sem hafa haft reynslu og þekkingu í heilbrigðismálum. Við erum auðvitað með mikið alþjóðlegt samstarf þar og það er bæði okkar hagur og líka skynsamlegt fyrir okkur að nýta þá starfskrafta í vel valin verkefni, en þau verða eðli máls samkvæmt alltaf að vera skilgreind.