150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða framsögu. Ég deili harmi hv. þingmanns yfir þeirri forgangsröðun sem framlagning frumvarpsins og flutningur þess lýsir á stundum sem þessum. Mér finnst mjög leitt að sjá að þetta séu áherslurnar núna, að þetta sé forgangsröðunin núna, að auðvelda okkur að senda fólk aftur til Grikklands, Ungverjalands eða annarra landa þar sem öryggi flóttamanna er sannarlega ógnað.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í eitt af þeim mörgu öfugmælum og útúrsnúningum sem ég finn í greinargerðinni með frumvarpinu. Á bls. 9 í greinargerðinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er liður í því að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða skjótt og örugglega umsóknir sem almennt leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar með því draga úr fjölda slíkra umsókna. Er það grundvallarforsenda þess að stjórnvöld hafi rými til að beina athyglinni að þeim hópi umsækjenda sem er í raunverulegri þörf fyrir vernd og verndarkerfið er hannað fyrir.“

Svo kemur línan sem ég er að velta sérstaklega fyrir mér:

„Það myndi einnig draga úr kostnaði ríkissjóðs og bæta meðferð opinbers fjár í samræmi við niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar, Útlendingastofnun: Málsmeðferð og verklagsreglur, frá því í nóvember 2018, sem er aðgengileg á vefsíðu Ríkisendurskoðunar.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ef mig misminnir ekki var það einmitt hv. þingmaður sem óskaði eftir þessari stjórnsýsluúttekt, hvort henni finnist þetta ekki frekar afbökuð tilvísun í þau skilaboð sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Var hún að leggja til að Dyflinnarreglugerðinni yrði beitt ef þess væri nokkur kostur? Var hún að leggja til að það væri skilvirk meðferð á opinberu fé að vísa bara burt öllum þessum börnum?