150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er dapurlegt að sjá og heyra og verða vitni að því að þarna voru tvö glötuð ár sem hefðu getað nýst í að koma fram með ígrundaðar tillögur um það sem þyrfti að bæta í útlendingalögunum ef nefndin hefði talið þess þörf. Það er líka allt í lagi að árétta það að þegar útlendingalögunum var breytt árið 2016 var vilji löggjafans sá að ávallt skyldi taka hælisumsóknir til efnismeðferðar ef umsækjandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það var hluti af innihaldinu á bak við útlendingalögin við setningu þeirra 2016.

Hér hefur hv. þingmaður farið gríðarlega vel yfir þessi mál og mig langar svolítið að heyra, þó að tíminn sé stuttur, og fá hans sýn á framhaldið, (Forseti hringir.) hvernig hann sér fyrir sér vinnu nefndarinnar og hvort það gefist nokkuð tími til þess að móta alvörusýn (Forseti hringir.) eða hvort við höfum glatað þessum árum til einskis.