150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

orð ráðherra um forsendur lífskjarasamninganna.

[10:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í kvöldfréttum RÚV sl. þriðjudag sagði hæstv. fjármálaráðherra, aðspurður um kjaradeilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að forsendur lífskjarasamninganna stæðu óskaplega tæpt. Honum fannst augljóst að það væri ekki mikið svigrúm til að mæta þeim kröfum sem nú væru uppi í kjaradeilum. Þessi orð lætur hæstv. fjármálaráðherra falla á sama tíma og hér á þingi afgreiðum við hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum til bjargar efnahagslífinu, til bjargar fyrirtækjum og atvinnurekendum. Það virðist vera gríðarlegt svigrúm til að koma til móts við kröfur stærstu fyrirtækja í landinu að greiða hlutabætur og uppsagnarfrest fyrir starfsfólkið svo að fyrirtækin þurfi ekki að bera kostnaðinn af því, en þegar kemur að svigrúmi til að greiða fólki sem sinnir ómissandi grunnþjónustu í landinu sanngjörn laun, þá er svigrúmið allt í einu ekki neitt. Hvernig stendur á því, forseti?

Fulltrúar atvinnurekenda voru heldur ekki lengi að stilla sér upp fyrir myndavélarnar og nýta þennan nýja höggstað á lífskjarasamningunum. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði gjörbreyttar forsendur í efnahagslífinu og vildi þess vegna ekki svara því hvort samningum yrði mögulega sagt upp síðar á árinu vegna forsendubrests. Þetta opnaði hæstv. fjármálaráðherra á og jafnvel hvatti til með orðum sínum í kvöldfréttum RÚV í fyrradag. Ég myndi ásaka ráðherra um kæruleysi ef ég teldi þetta ekki vera fullkomlega viljandi gert.

Ég spyr því: Er hæstv. fjármálaráðherra að hóta þessum stéttum að ef þær falli ekki frá kröfum sínum muni hann segja upp lífskjarasamningunum? Ætla stjórnvöld ekki að standa við lífskjarasamningana í þeirri fjármálaáætlun sem von er á fljótlega?