150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

breyting á útlendingalögum.

[11:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin. Valdið er hennar og valdið er ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Spurningin var einföld: Er samstaða í ríkisstjórnarflokkunum þremur? Hæstv. ráðherra svaraði því til að það séu settir fram fyrirvarar. Allir sem hafa hlýtt á það hverjir fyrirvararnir eru átta sig á því að þeir eru veigamiklir. Mér finnst svör dómsmálaráðherra því miður ramma ágætlega inn að hverju er stefnt og ég hef áhyggjur af því. Mér finnst þessi pólitík lýsa skorti á mannúð, samkennd og ábyrgð. Þeir stjórnarliðar sem hafa talað í þessu máli af hálfu VG hafa ýmist lýst yfir efasemdum eða allt að því andstöðu. Það er óskandi að þeir hafi kjarkinn til að standa með þeim efasemdum sínum í málinu og stoppa það. Sannarlega verður að forgangsraða, sannarlega verður að horfa til þeirra sem eru í mestri þörf, en áhyggjuefnið er hvar sú lína er dregin. Vernd mun standa mjög fáum til boða verði þetta niðurstaðan, jafnvel ekki þeim sem sannarlega þurfa á henni að halda. Niðurstaðan verður: Hingað geta fáir leitað og mörgum verður vísað burt. Það er pólitík sem er ekki hægt að taka undir.