150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

breyting á útlendingalögum.

[11:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er alrangt hjá hv. þingmanni að eftir að þetta frumvarp fari í gegn muni fáir eiga þess kost að fá vernd, að það myndi standa fáum til boða. Það er alrangt hjá hv. þingmanni. Við sjáum það í dag að allir þeir sem fá jákvæð svör í kerfinu okkar í dag eru einmitt þeir sem eru í raunverulegri þörf fyrir vernd, að flýja ofsóknir í heimalandi sínu. Aukinn fjöldi úr þeim hópi kemur hingað að sækja um í fyrsta skipti á Íslandi og hefur ekki sótt um í öðru landi, er ekki með vernd annars staðar og þarf raunverulega á vernd að halda. Þeir sem falla undir það að vera með vernd annars staðar fá oftast neikvætt svar í íslensku kerfi í dag þannig að raunverulega breytir þetta mjög litlu nema því að hraða svarinu.

Það sem hv. þingmaður kemur hér inn á, mannúð, samkennd og ábyrgð, er einmitt það sem útlendingalöggjöfin og útlendingastefna Íslands gengur út á, mannúð, samkennd og ábyrgð og að gera vel við þá sem koma hingað í raunverulegri þörf fyrir vernd. Við erum að gera vel, við gerum betur en nokkur önnur lönd í kringum okkur við að taka á móti fólki, hvort sem við miðum við fjölda eða hvernig við erum að bregðast við Covid, og gefa fólki alþjóðlega vernd (Forseti hringir.) vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi sem mun hafa áhrif á 225 einstaklinga.