150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um að brott falli sú hugmynd að hafa aukið fjármagn til nýsköpunar tímabundið næstu tvö ár. Við vitum öll að ef vel á að vera þarf áhersla á nýsköpun að vera leiðarljós okkar inn í framtíðina. Þetta er tillaga frá okkur í Viðreisn. Nú hef ég heyrt stjórnarliða koma hingað upp og segja að þetta sé hið ágætasta mál en bara ekki tímabært núna, þau ætli að gera þetta seinna. Ég harma það að vissu leyti vegna þess að ég er algjörlega ósammála því að þetta sé ekki tímabært núna. Ég tel þetta lykilatriði í því að ná okkur upp úr þeirri stöðu sem við erum í. Ég fagna því þó líka ef þetta er fyrirheit um það að ef málið verður fellt hér komi það inn í næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna þess að þetta er mikilvægt.