150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er lykilspurning. Ég er búin að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir EES-samstarfið og fyrir liggur mjög gagnmerk skýrsla um það hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að vera með sæti við borðið. En þetta er svolítið fortíðin. Það sem ég er að tala um er framtíðarspegillinn og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er hann reiðubúinn að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að meta kosti Íslands í alþjóðlegu samhengi til framtíðar? Hvaða leið er best fyrir okkur Íslendinga að fara núna? Er það leið tvíhliða samninga, eins og utanríkisráðherra hefur í rauninni verið að boða, eða er það að dýpka samráðið í okkar alþjóðlega samstarfi, hvort sem það er NATO, Evrópusamstarfið eða á öðrum vettvangi? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því að vinna úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni fjölþjóðlegri samvinnu? Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að við fáum aðeins að sjá á spilin til framtíðar (Forseti hringir.) og vinna í haginn, óháð því hvort við viljum ganga inn í ESB eða ekki, og við förum í það að vinna undirbúningsvinnuna okkar, faglegu vinnuna(Forseti hringir.) þar sem við fáum alla að borðinu.