150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:47]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit ekki hvort hún hafi komið á óvart en maður hefur ekki heyrt svona ræðu mjög lengi. Fyrst vil ég leiðrétta það, vegna þess að ég er formaður í Norðurskautsráðinu, að Bandaríkjamenn hafa ekki lamað áætlanir okkar í loftslagsmálum eða neinu öðru. Það er bara alrangt og sú fullyrðing stenst ekki. Ég hef bara aldrei heyrt hana fyrr en hv. þingmaður kemur hér fram með þær yfirlýsingar. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega bara orðlaus, að koma hingað upp við þessar aðstæður og tala um að Evrópusambandið standi svo sterkt núna þegar þetta álagspróf er í alþjóðasamstarfi.

Virðulegi forseti. Ég er reglulega á fundum með fólki sem er miklir ESB-sinnar og gegnir sambærilegum embættum og ég í öðrum löndum. Það hefur enginn haldið þessu fram, enginn. Og reyndar er það þannig að menn hafa alla jafna áhyggjur, eins og þeir höfðu sömuleiðis í fjármálakreppunni, vegna þess að svo sannarlega var ekki skjól fyrir löndin sem voru í Evrópusambandinu. Skrifaðar hafa verið lærðar greinar og bækur um slíkt og auðvitað er endalaus umfjöllun. En þegar við horfum á þetta hér — eigum við að fara í gegnum Schengen? Eigum við að fara í gegnum samstarfsleysið eftir að Covid kom upp? Eigum við að fara yfir sundrunguna í Evrópusambandinu þegar það áfall reið yfir? Ég vil bara biðja hv. þingmann að útskýra þetta fyrir mér, þingi og þjóð, því að það eru fréttir að Evrópusambandið hafi staðist þá prófraun sem þetta Covid áfall er, það eru miklar fréttir fyrir alla.