150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[13:11]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mikil frétt fyrir mig að ég hafi farið á taugum út af einhverjum málum í tengslum við umræðu um alþjóðamál og það eru upplýsingar sem hafa ekki borist á borð til mín. Það er enginn eðlismunur á samstarfi okkar þegar kemur að varnarmálum, það liggur alveg fyrir. Hins vegar hefur verið lítið gert í endurnýjun varnarmannvirkja í langan tíma. Það segir sig sjálft, bæði út af breyttum aðstæðum í öryggisumhverfi og sömuleiðis bara varðandi breytta tækni og annað slíkt, að það þarf að viðhalda slíku og endurnýja. Það er ekkert leyndarmál að þegar kemur að Helguvík þá held ég að það gæti verið mjög góð fjárfesting sem myndi nýtast okkur ekki bara í öryggismálunum heldur sömuleiðis hvað varðar borgaralega starfsemi. Við erum t.d. að nýta ljósleiðarann í því sem snýr að flugumferð okkar og annað slíkt.

En varðandi þessa tillögu um skýrslu sem ég hef bara ekki náð að skoða þá fagna ég almennt öllu því sem kemur að umræðu um þessi mál. Hvort það sé rétt að fara í þessa skýrslu veit ég ekki, en það sem ég er hins vegar að leggja áherslu á er að ef menn segja að þeir séu fylgjandi EES-samningnum þá verður hljóð og mynd að fara saman. Svo geta menn viljað stíga einhver önnur skref, en við hljótum, ef við erum fylgjandi því að verja EES-samninginn, að styðja það að efla og styrkja hagsmunagæslu á þeim vettvangi og gera það sem þarf að gera og er m.a. lagt til í skýrslu starfshóps sem var undir forystu Björns Bjarnasonar þegar kemur að þeim efnum. Eitt af því er aukin umræða um t.d. fræðilega þáttinn þar.