150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og get verið sammála honum í mörgum sviðum. Eitt er kannski ekki rætt mikið en það er sú samvinna sem við eigum við Norðurlöndin. Ég skal alveg viðurkenna það að mín fyrstu kynni af Norðurlandaráði voru ekki góð. Það voru nú bara, held ég, mistök í upphafi. En eftir að ég fór að kynna mér betur málefni Norðurlandaráðs og Norðurlandanna í heild sinni, þá er þar margt sem við getum lært, alveg hellingur. Því miður kom Covid í veg fyrir það en við vorum á leiðinni að fá einar þrjár eða fjórar nefndir Norðurlandaráðs hingað heim í sumar. Því miður er það farið. Hingað átti t.d. að koma velferðarnefnd sem ætlaði að kynna sér jafnréttismál hér, sem sýnir að þeir voru að horfa til þess, og líka geðheilbrigðismál. Jú, við stöndum okkur vel á ýmsum sviðum en við getum alltaf gert betur og okkur ber líka að gera betur og ég vil ítreka það að við eigum að taka til í okkar eigin garði vegna þess að við getum það svo vel, við erum svo fámenn og getum svo auðveldlega verið algjör fyrirmynd, t.d. jafnréttismálum. En einhverra hluta vegna erum við enn að berjast, ég nefni t.d. kvennastörfin og konur í verkfalli sem eru að berjast fyrir einhverjum lágmarkslaunum vegna þess að það er einhver pólitísk þrjóska milli sveitarfélaga sem er alveg með ólíkindum vegna þess að þarna er um smáaura í heild sinni að ræða. Þess vegna skilur maður oft ekki þetta með jafnréttið, að við skulum ekki geta alla vega fundið það út að þeir sem eru t.d. á lægstu laununum og hafa það verst séu á jöfnum tekjum og mannsæmandi og að við skulum ekki vera búin að reikna út hvað þarf til að lifa og hvað séu mannsæmandi laun hérna á Íslandi.