150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er einfaldlega verið að lofa fjölmiðlum því sem var þegar búið að lofa þeim á fjárlögum. Þetta er sérkennilegt. Og jafnvel verður fjárhæðin lægri en 400 milljónir þannig að hugsanlega er verið að lækka stuðning til fjölmiðla úr 400 niður í 350 milljónir.

Mig langar í seinna andsvari að beina sjónum mínum að atvinnuleysisbótum. Hv. þingmaður og kollegar hans í ríkisstjórn felldu í morgun tillögur Samfylkingarinnar um að hækka atvinnuleysisbætur. Þær eru núna 289.000 kr. á mánuði. Ég spyr hv. þingmann: Treystir hann sér til að lifa á 289.000 kr. mánuðir? Af hverju felldi hv. þingmaður þá tillögu? Þetta er augljóslega ekki mikil aukning sem Samfylkingin var að leggja hér fram. Þetta var virkilega raunsæ tillaga til að ná fram í þessum sal, sérstaklega í ljósi þess að núna stefnir allt í að 15.000–20.000 manns fari á atvinnuleysisbætur. Allir Íslendingar þekkja einhvern sem er á leiðinni á atvinnuleysisbætur eða er að fara að lenda þar sjálfir. Fólk getur spurt: Af hverju eigum við að treysta þingmönnum sem treysta sér ekki sjálfir til að lifa á 289.000 kr. á mánuði? Af hverju eigum við að treysta þeim þingmönnum sem ákveða í þessum sal að fólkið sem lendir á atvinnuleysisbótum eigi að sætta sig við svo lágar bætur á meðan þingmenn myndu aldrei sætta sig svo lágar tekjur?