150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að fara að ræða um hinn svokallaða aðgerðapakka tvö, sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Það verður að segjast að þessi pakki, ef pakka skyldi kalla, hefur valdið talsverðum vonbrigðum. Þau vonbrigði koma skýrt fram hjá ferðaþjónustunni, þau koma skýrt fram hjá verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum, Öryrkjabandalaginu, Félagi eldri borgara og að sjálfsögðu stjórnarandstöðunni, sem er eilítið metnaðarfyllri en ríkisstjórnarflokkarnir hvað þetta varðar, svo fáeinir séu nefndir.

Fyrirhugaðar aðgerðir í þessum fjárauka nægja engan veginn til að mæta því alvarlega ástandi sem blasir við íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Vitið þið hvað þessi fjárauki er stór? Hann er rúmlega 13 milljarðar. Er það há tala eða lág tala? Það er mjög lág tala, þessi fjárauki er um 1% af ríkisútgjöldunum. Ég veit að það stefnir í stærri halla. Ég veit að þetta er ekki eini aðgerðapakkinn. Síðasti fjárauki var 25 milljarðar. Þetta nægir engan veginn til að mæta þessari krísu sem allir eru sammála, hægri og vinstri, upp og niður, um að sé mjög djúp, alvarleg og jafnvel ein dýpsta efnahagskreppa sem við höfum séð í 100 ár. Af hverju eigum við þá að hoppa af gleði yfir að fá 1% fjárauka eins og hér er til umræðu? Hér var sagt ítrekað af hálfu ráðherranna: Gerum frekar meira en minna. Ég hef ítrekað kallað eftir því, gerum þá meira. Þetta er ekki nægjanlegt til að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem hér er uppi. Stjórnarflokkarnir vita það. Þeir segja, þegar maður gagnrýnir þá með þessum hætti: Já, já, þetta kemur seinna. Það var sagt með pakka eitt, núna með pakka tvö og í næstu viku kemur pakki þrjú. En það eru nú þegar hugmyndir sem væri hægt að ráðast í og við í fjárlaganefnd höfum ítrekað fengið umsagnir frá fjöldanum öllum af aðilum, hagsmunaaðilum, um að hér sé hægt að gera meira og það er hægt að gera meira. Núna þurfum við að setja opinbera viðspyrnu í kerfið. Á meðan eftirspurnin á einkamarkaði hefur hrunið þarf hið opinbera að koma inn með sinn kraft.

Í meðförum fjárlaganefndar, því við erum hér í 2. umr., varð niðurstaðan eftir mikla fundarsetu að gera einungis fimm breytingartillögur, frekar smáar í stóra samhenginu, upp á 500 milljónir sem er 0,05% aukning ríkisútgjalda, til að setja þessar tölur í samhengi. Þetta er svo lítið eftir allt sem við höfum gengið í gegnum í fjárlaganefndinni, fundað kvölds og morgna, þá er þetta afraksturinn. Sumar breytingartillögurnar eru svo smáar að þetta er eitthvað sem ráðherrarnir eiga bara að redda af sínu skúffufé, í alvörunni. Ég lýsti miklum vonbrigðum með að fjárlaganefnd treysti sér ekki til að gera meira í samræmi við þær umsagnir sem við fengum. Við fengum fínar umsagnir. Mér finnst fjárlaganefnd vera of máttlaus þrátt fyrir góða viðleitni, of máttlaus þegar kemur að því að setja aukna fjármuni í þá átt sem kallað er eftir og er nauðsynlegt.

Ég hef líka nefnt að með þessum aðgerðapakka kynnti ríkisstjórnin glærupakka upp á 36 bls. og þar er hvergi minnst einu orði á heimili. Ég veit að fólk vinnur hjá fyrirtækjum. Fólk er ekki fyrirtæki og fyrirtæki eru ekki fólk. Þetta sýnir bara viðhorfið, hver nálgunin er uppi í fjármálaráðuneyti. Fókusinn er ekki á heimilin. Það sést nokkuð vel þegar skoðað er það kynningarefni sem ríkisstjórnin teflir þó sjálf fram. Það hefði þurft að huga að aðgerðum sem mæta tekjutapi heimilanna með beinum hætti. Það vekur athygli að húsnæðismálin eru t.d. ekki nefnd einu orði í þessum aðgerðapakka en við sjáum hvað kemur næst.

Alþýðusambandið, það stóra batterí, lýsti í umsögn sinni um þennan pakka verulegum vonbrigðum, m.a. með að þar væri ekki að finna neinar tillögur, þetta er bara beint úr umsögn þess, til að tryggja afkomuöryggi þeirra hópa sem féllu milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum stjórnvalda, svo sem einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, óléttra kvenna, foreldra sem hafa misst úr vinnu vegna takmarkaðs leikskóla- og skólastarfs, launafólks sem starfar hjá fyrirtækjum samkvæmt fyrirmælum sóttvarnayfirvalda o.s.frv. Þetta eru hópar sem ASÍ segir að þurfi að gera meira fyrir og huga meira að í þessum aðgerðum. Þannig að beinar tillögur fyrir heimilin eru afskaplega rýrar, ef einhverjar.

Í þessu sambandi vil ég líka beina því til bankanna úr þessum stól að það skiptir miklu máli að þær vaxtalækkanir sem Seðlabankinn hefur ráðist í skili sér til heimilanna. Við sjáum það á vaxtatölum bankanna að það er ekki gert í nægilegum mæli. Það er ágætt að bankarnir heyri það úr þessum stól að vaxtalækkun Seðlabankans verður að skila sér til heimilanna. Sömuleiðis vil ég koma þeirri hvatningu á framfæri til Íbúðalánasjóðs, sem er með uppgreiðslugjald á mörgum sínum útlánum, að huga að því að taka það af svo fólk geti hugsanlega endurfjármagnað sín lán, jafnvel fært sig til lífeyrissjóða eða bankanna þar sem vextirnir eru líklega lægri, en fólk er fast út af uppgreiðslugjaldinu. Þetta er neytendavæn aðgerð sem við ættum að huga að því fólk er að greiða stóran hluta af sínum tekjum í húsnæðismál.

Herra forseti. Það eru gríðarleg vonbrigði með þá staðreynd að í þessu frumvarpi er ekki gerð nein hækkun á atvinnuleysisbótum. Hvað eru atvinnuleysisbætur háar? Þær eru tæpar 290.000 kr. Hugsið ykkur, 290.000 kr. Ég treysti mér ekki til að lifa á 290.000 kr. og fullyrði að enginn þingmaður í þessum sal treystir sér til að lifa á 290.000 kr. á mánuði. En af hverju ætlumst við þá til þess að fólk sem lendir í atvinnuleysi og fer á þessar bætur lifi á þessum litlu fjármunum? Þingheimi var gefið tækifæri nú í morgun til að hækka atvinnuleysisbætur, ekkert mjög mikið, en upp í 314.000 kr. Hvað gerðist hér? Þingmenn Vinstri grænna, þingmenn Framsóknarflokksins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu allir nei við þessari litlu hækkun á atvinnuleysisbótum. Mér finnst það vera nöturleg skilaboð til þess fjölda fólks sem nú er að fara á atvinnuleysisbætur í því ástandi sem er í dag. Atvinnuleysi er okkar megináhyggjuefni í dag. Það stefnir í metatvinnuleysi. Við erum komin með allt að 15.000–20.000 manns á atvinnuleysisskrá plús fólkið sem er á hlutabótum. Allt að 50.000–60.000 Íslendinga, einn fjórða af vinnumarkaðnum, vantar meiri vinnu eða vinnu yfirleitt. Atvinnuleysi, hvað þá langtímaatvinnuleysi, er eitt það ömurlegasta sem fólk lendir í samfélagslega, heilsufarslega, efnahagslega o.s.frv. Það er gríðarlega mikilvægt að við beitum öllum tiltækum ráðum til að sporna gegn atvinnuleysi. Samhliða því eigum við að hækka bæturnar sem þetta fólk þarf að reiða sig á. Við getum ekki ætlast til að fólk lifi á 289.000 kr. á mánuði. Við höfum efni á því að hækka þessar bætur. Við erum að ráðast í margs konar aðgerðir. Það er ekki hægt að segja við okkur: Nei, Ísland hefur ekki efni á því að hafa hærri atvinnuleysisbætur en 289.000 kr. Það er ekki rétt. Við höfum svo sannarlega efni á því, herra forseti, og það er nauðsynlegt að við hækkum þær.

Það er mikilvægt að hækka atvinnuleysisbætur, en það er líka gríðarlega mikilvægt að búa til ný störf og vernda störf. Eitt helsta útspil þessarar ríkisstjórnar er að niðurgreiða uppsagnir. Það er leiðin í þriðja pakkanum sem verður líklega til umræðu hér í næstu viku. Ég hef varpað fram þeirri hugmynd, og fleiri, að samhliða því að búa til ný störf í einkageiranum þurfum við líka að fjölga opinberum störfum. Við þurfum auðvitað að gera hvort tveggja. Við þurfum að fjölga störfum í einkageiranum, en hann er ábyrgur fyrir yfir 70% starfa. En okkur vantar líka opinber störf og okkur vantaði þau fyrir þetta hrun. Okkur vantaði fleiri hjúkrunarfræðinga, fleiri sjúkraliða, fleiri kennara, skólaliða, lögreglumenn, barnaverndarfólk, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, vísindamenn. Það eru allt opinberir starfsmenn sem vöntun var á fyrir þennan faraldur og hvað þá núna. Það er góð hugmyndafræði og góð hagfræði að fjölga opinberum störfum. En það er ekki ný hugmynd. Einn þekktasti hagfræðingur 20. aldarinnar, Keynes, talaði nákvæmlega svona. Í kreppu og krísu fjölgum við opinberum störfum og aukum opinber umsvif. Það er ekki hægt að auka opinber umsvif án þess að fjölga opinberum starfsmönnum. Með því náum við að fjölga störfum sem okkur vantar en líka að bæta þjónustu gagnvart okkur sjálfum. Landspítalann hefur ítrekað sent okkur þau skilaboð um að þar vanti fleiri hjúkrunarfræðinga. Af hverju svörum við ekki því ákalli? Við erum með færri lögreglumenn í dag en fyrir tíu árum. Sjúkraþjálfarar, sjúkraliðar og fleiri stéttir; fólk finnur það á eigin skinni að það vantar að bæta þarna í. Roosevelt gerði þetta, forseti Bandaríkjanna, hann fjölgaði opinberum störfum. Hann stuðlaði líka að auknum opinberum umsvifum, jók opinberu eftirspurnina, lét hjól atvinnulífsins fara af stað með opinberu fé. Það er einmitt það sem við eigum að gera núna. Ríkið getur tekið höggið á sig. Það getur auðvitað ekki gert allt, það er enginn að tala um það, og auðvitað þurfum við líka að hlúa að einkageiranum og nýsköpuninni. Einkageirinn er gríðarlega mikilvægur, skapar gjaldeyri o.s.frv. Þetta eru tvær stoðir. Fókusinn má ekki bara vera á aðra stoðina. Ég er alls ekki að segja að við höfum bara fókus á opinber störf, alls ekki, en mér finnst skilaboðin frá ríkisstjórninni vera þau að við eigum bara að fókusa á aðra stoðina, sem er einkageirinn.

Þegar ég tefldi þessari hugmynd fram sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, og þetta er bein tilvitnun í hann: „Þetta er einhver versta hugmynd sem ég hef heyrt“, sagði hann þegar ég lagði til að við ættum að fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, lögreglumönnum, sálfræðingum o.s.frv. Grundvallarmunurinn á milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins verður ekki skýrari. Það væri fróðlegt að heyra frá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum hvar þeir standa í þessari hugmyndafræðilegu umræðu, hvort ekki sé skynsamlegt að efla opinbera þjónustu með fleiri opinberum störfum til að mæta þeirri þörf sem óneitanlega er fyrir hendi hvert sem litið er í velferðarkerfinu eða í menntakerfinu. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sjá þetta. Nöturleg skilaboð, fannst mér, til opinberra starfsmanna frá formanni Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn alltaf nálgast umræðuna um opinber störf og þjónustu eins og það sé eitthvert bákn sem þurfi að berjast gegn. Ég ætla bara að rifja upp hvað opinber starfsmaður gerir fyrir fjármálaráðherra og allan almenning í landinu. Það er opinber starfsmaður sem tekur á móti þér þegar þú fæðist. Það er opinber starfsmaður sem kennir börnunum þínum. Það er opinber starfsmaður sem sér um þarfir fatlaðra og eldri borgara. Það er opinber starfsmaður sem er núna í framlínunni gegn heimsfaraldri og það er líka opinber starfsmaður sem rannsakar jarðfræði Íslands, vaktar snjóflóðahættu, hannar vegina sem þú keyrir, sígur úr þyrlu til að bjarga sjómanni, greiðir þér áunnar bætur og kemur í veg fyrir að á þér sé brotið sem neytanda en líka sem manneskju. Loks er það opinber starfsmaður sem hjúkrar þér á dánarbeði þínu.

Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn, og formaður hans sérstaklega, alltaf nálgast það þannig að öll verðmætasköpun eigi sér fyrst og fremst stað í einkageiranum. Það er einfaldlega rangt. Það er eins og sumir hægri menn átti sig ekki á því að opinberir starfsmenn skapa mjög mikil verðmæti og greiða skatta. Það er ekki síst fyrir tilstilli opinberra starfsmanna að stór hluti af verðmætasköpun einkageirans getur átt sér stað. Förum aðeins yfir það. Einkafyrirtæki reiða sig á að opinberir starfsmenn kenni verðandi starfsmönnum einkageirans, hjúkri starfsmönnum þeirra, komi þeim aftur til vinnu í einkageiranum. Það eru opinberir starfsmenn sem byggja upp fjarskiptakerfi og samgönguæðar sem einkageirinn reiðir sig á. Það eru opinberir starfsmenn sem framfylgja samkeppnislögum, svo hinn stóri svíni ekki á hinum smáa. Það eru opinberir starfsmenn sem gera fríverslunarsamninga sem einkageirinn reiðir sig óneitanlega á. Svona mætti lengi telja.

Við eigum ekki að sætta okkur við að endalaust sé verið að tala niður hið opinbera kerfi og starfsmenn þess af ákveðnum stjórnmálamönnum. Síðan er það mjög áhugavert, og það er ekki síst á tímum neyðarástands, að skoðanabræður fjármálaráðherra til hægri leita í faðm ríkisins og vilja aðstoð frá hinum opinberu starfsmönnum og fá fjármagn frá almenningi.

Kjarni málsins er þessi: Það er bæði samfélagslega og efnahagslega miklu skynsamlegri leið að fólk sé með atvinnu, þótt opinber sé, það virðist vera skammaryrði hjá þessari ríkisstjórn, en að fólk sé á bótum. Við getum og eigum að fjölga opinberum starfsmönnum og um leið erum við að bæta þjónustuna fyrir okkur sjálf, hvort sem það er aukin heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta, bætt menntun, nýsköpun, löggæsla eða hvaðeina sem við reiðum okkur á.

Við megum ekki og eigum ekki að láta hægri kreddu ráða hér ríkjum því hún er bæði óskynsamleg og kostnaðarsöm. En ég vil líka ítreka, eins og ég gat um áðan, að við eigum að sjálfsögðu líka að fjölga störfum í einkageiranum. 70% af störfum eru í einkageiranum og sá geiri er að sjálfsögðu mjög mikilvægur. En það er áhugavert að hafa í huga að undanfarin tíu ár hefur opinberum starfsmönnum fækkað hlutfallslega miðað við fjölgun landsmanna. Það er líka áhugavert að einn þriðji af ríkisútgjöldunum, sem eru 1.000 milljarðar, fer í laun. Það er enginn að tala um að hið opinbera gnæfi yfir með einhverjum hætti. Við erum bara að tala um að það nægir ekki að niðurgreiða uppsagnir, eins og það sé heimsins besta leið. Við eigum líka að búa til störf og verja störf. Það getum við í þessum sal.

Herra forseti. Mig langar að fara aðeins í annað. Í þessum aðgerðapakka er óneitanlega mjög áberandi að litlu fyrirtækin virðast gleymast og ekki síst þau sem eru í ferðaþjónustunni. Úrræðið sem helst gagnast þeim eru svokölluð stuðningslán, upp á 6 milljónir. Í fyrsta lagi er þetta frekar lág upphæð og í öðru lagi heyrum við að bankarnir, sem eiga að veita þessi lán, eru alls ekkert að fara að gera það og vilja ekki sjá þessi lán. Þetta úrræði virðist ekki þjóna þeim tilgangi sem það átti að gera. Það getur verið gott úrræði. Við þurfum alla vega að fylgjast vel með því hvort það skili sér til þeirra fyrirtækja sem þurfa á því að halda. Það þarf því að setja meiri hugsun, herra forseti, og kraft í hvernig við mætum litlu fyrirtækjunum, ekki síst í ferðaþjónustunni, sem er nú að blæða út. Þetta eru ekki endilega fyrirtæki sem þurftu að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda heldur fyrirtækin sem lokuðu vegna tekjutaps eða minnkandi eftirspurnar eftir þjónustu.

Það er ekki nóg að niðurgreiða uppsagnir eins og verður gert í þriðja pakkanum, en við erum enn þá í öðrum pakka. Þess vegna veltir stjórnarandstaðan fyrir sér með sameiginlegri breytingartillögu hvort við ættum ekki að styrkja þessi fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem njóta stuðningslána eða geta notið góðs af þeim eru afmörkuð nú þegar af ríkisstjórninni. Af hverju ekki að styrkja þau með beinum hætti eins og ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja svokölluð lokunarfyrirtæki? Það eru fyrirtækin sem þurftu að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Þetta er ein leið sem væri hugsanlega hægt að ráðast í til að mæta því tapi sem þessir aðilar verða fyrir. Ég heyri víða í atvinnulífinu að litlu fyrirtækin, sem eru nánast öll okkar fyrirtæki, sjá ekki neitt í þessum aðgerðum, eða lítið, það er alltaf eitthvað í þessu. Þetta eru fyrirtækin sem fá ekki lokunarstyrki, munu ekki nýta sér brúarlánin, stuðningslánin ná afskaplega skammt. Eftir stendur, hvað? Jú, hlutabótaleiðin. Við styðjum hana en við þurfum að vera miklu metnaðarfyllri til að ná til þessara litlu fyrirtækja sem eru í rosalegum vandræðum en eru kannski ekki að biðja um mjög mikið. Þetta eru fyrirtæki sem glíma t.d. við að standa í skilum á leigu. Mig langar að biðla til fasteignafélaga, sem eiga stóran hluta af húsnæði fyrir atvinnulífið, að þau sýni skilning og sveigjanleika gagnvart þessum litlu fyrirtækjum þegar kemur að húsaleigu. Þetta skiptir máli. Að gefa þessum fyrirtækjum sex mánaða frest á greiðslu húsaleigu myndi skipta miklu máli. Ég ætla ekki bara að biðla til þessara þriggja stóru fasteignafélaga, ég ætla líka að biðla til þeirra sem eiga þessi fasteignafélög, og það eru í sumum tilfellum lífeyrissjóðirnir okkar, að sýna samfélagslega ábyrgð. Allir eru að taka eitthvað á sig. Þeir þurfa að vera sveigjanlegir þegar kemur að slíkum aðgerðum. Lífeyrissjóðirnir eru svolítið ríki í ríkinu. Þeir eiga 5.000 milljarða. Hugsið ykkur. Ríkið er með 1.000 milljarða. Eignir lífeyrissjóðanna eru fimm sinnum stærri en fjárlög ríkisins. Lífeyrissjóðirnir hafa 12 milljarða í hverjum mánuði til að fjárfesta. Þeir skipta okkur rosalega miklu máli til að koma hjólunum af stað aftur og líka að þeir sýni sveigjanleika og skilning gagnvart þeirri fordæmalausu stöðu sem fyrirtækin glíma núna við. Lífeyrissjóðir; komið með okkur í þetta, bankarnir, stórfyrirtæki og fasteignafélög. Þið verðið að gera það því til lengri tíma skiptir svo miklu máli að við höfum öflugt atvinnulíf. Við verðum að hafa öflugt atvinnulíf, spennandi atvinnulíf sem byggist á nýsköpun og tækni og bjartsýni. Fólk þarf að hafa von út úr þessu svartnætti sem við erum núna í. Allt svona, þriggja eða sex mánaða pása af leigugreiðslum, skiptir máli svo menn leggi ekki upp laupana of snemma.

Herra forseti. Lítum þá á félagslegu aðgerðirnar í þessum pakka. Þær eru frekar aumar og naumar. Í þær fara 8,5 milljarðar. Það er ekkert sérstaklega mikið. Ég hef gaman af tölum og að setja þær í samhengi. Þessi félagslegi pakki er lægri upphæð en lækkun veiðileyfagjalda verður á kjörtímabilinu hjá þessari ríkisstjórn. Auðvitað fögnum við þeim verkefnum sem fá einhverja fjármuni en við þurfum að hugsa miklu meira um félagslegu aðgerðirnar sem þarf að ráðast í. Þetta er ekki bara efnahagslegt sjokk sem við erum að ganga í gegnum, þetta er sjokk á svo mörgum mismunandi sviðum.

Ef við lítum á verklegar framkvæmdir í þessum aðgerðapakka þá er það mjög fljótgert. Það eru engar verklegar framkvæmdir í þessum fjárauka. Þegar við afgreiddum fyrsta fjáraukann voru þar verklegar framkvæmdir en þær voru strax gagnrýndar fyrir að vera allt of litlar, jafnvel áður en blekið á þeim fjárauka þornaði. Þetta snertir það sem ég gat um áðan, að það skiptir svo miklu máli í svona ástandi að hið opinbera auki eftirspurn sína eftir þjónustu og framkvæmdum. Ég veit að þingmenn vita þetta alveg en þetta þarf að vera myndarlegra en þið eruð tilbúin að gera hér. Það þarf að vera myndarlegra. Það borgar sig til lengri tíma að spýta í svo atvinnulífið nái að rísa upp og fari síðan aftur að greiða skatta. Þá komumst við fyrr út úr þessu. Við megum ekki hugsa í þeirri sjálfstæðisnaumhyggju sem virðist ráðandi. Við megum ekki láta formann Sjálfstæðisflokksins ráða viðbrögðum okkar gagnvart þessari krísu. Það er ekki gott fyrir samfélagið ef sú hugmyndafræði verður ofan á. Nú er ég biðla til félaga minna í Vinstri grænum og Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn þarf jafnvel meira á ykkur að halda en þið á þeim flokki.

Nýsköpunarmálin. Ég hef sagt úr þessum ræðustól: Nýsköpun er töfraorðið úr kreppu. Það getur tekið tíma að fá afraksturinn fram en við vitum ekkert hvert næsta Meniga eða næsta Marel. Hér er svo auðvelt að setja meira í nýsköpun. Ég veit að það er verið að setja aðeins meira í, en þetta eru allt of litlir fjármunir. Meiri hlutinn var ekki til í að setja neitt meira í Tækniþróunarsjóð að þessu sinni, menn voru ekki til í að setja í Kvikmyndasjóð, en það er mjög sniðugt og kallar ekki á mikla peninga. Þegar kvikmyndaverkefnin eru tilbúin að koma, þau koma jafnvel fyrr til okkar en túristarnir, og kvikmyndaiðnaðurinn er búinn að grátbiðja okkur: Setjið meira í sjóðinn, setjið meira í endurgreiðsluna. Ég veit að í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að stefna eigi að því að gera það, en það sem skiptir mig máli eru bara konkret tölurnar. Ef við meinum að við viljum efla kvikmyndaiðnaðinn þá skulum við láta tölurnar tala sínu máli. Þær gera það ekki því að það fer ekki króna í Kvikmyndasjóð í meðförum nefndarinnar.

Ég hef aðeins talað um listamannalaun. Hér er verið að bæta aðeins í þau. Það er verið að bæta 100 listamönnum á listamannalaun og forsætisráðherra sagði að sú hugmynd hefði verið fengin frá okkur í Samfylkingunni. Við fögnum því að sjálfsögðu. Ég ítreka samt að við hefðum viljað fá meira fyrir listamenn. Það eru 3.000 listamenn sjálfstætt starfandi í menningu, þeir sem eru ekki á launaskrá annars staðar. Þessir aðilar eru að fara á atvinnuleysisbætur. Þeir hafa ekki getað unnið m.a. út af samgöngubanni og tilmælum sóttvarnayfirvalda um 2 metra regluna o.s.frv. Mér finnst það svo rakin hugmyndafræði og pólitík: Af hverju er ekki skárra að hafa listamann á launum þar sem hann er að vinna? Listamannalaun eru laun, það þarf að skila af sér. Af hverju er ekki skárra að hafa listamann á launum í stað þess að hafa hann á atvinnuleysisbótum? Þetta er „win-win“, ef ég má sletta, herra forseti. Hér er verið að bæta við 100 á listamannalaun og við fögnum því að sjálfsögðu, en ég hefði viljað hafa þá 3.000. Við hefðum efni á því vegna þess að atvinnuleysi er svo dýrt. 1 prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar 6,5 milljarða. Hugsið ykkur. Vitið þið hvað kostar 6,5 milljarða líka? Það er það sem kostar að tífalda fjölda listamanna á listamannalaunum, bara til að setja þessa tölu í samhengi. Ég er ekkert að segja að við hefðum náð því í gegn en við hefðum getað sett fleiri aðila í þetta kerfi sem við höfum nú þegar. Þetta krefst engrar sérstakrar hugsunar eða kerfisbreytinga, við fjölgum bara þeim listamönnum sem færu á listamannalaun. Þeir myndu skapa ríkara samfélag. Listamenn skapa líka umsvif, þeir ráða annað fólk í vinnu. Þetta býr til peninga, bókstaflega.

Svo eru það fjölmiðlarnir. Mér finnst sérkennilegt að þær 400 milljónir sem voru ákveðnar á fjárlögum áður en faraldurinn barst til Íslands eigi núna að fara til fjölmiðla undir hatti Covid-faraldursins. Þetta er mjög sérkennilegt. Það vita það allir í þessum sal að þetta var kannski ekki alveg pælingin. En af hverju bætum við ekki úr? Af hverju eru enn þá 0 kr. í fjáraukanum til fjölmiðla? Af hverju erum við að leyfa Sjálfstæðismönnum, sem eru að stoppa fjölmiðlafrumvarpið svokallaða í nefndinni, að vinna þennan slag líka? Þeir eru að gera það. Í aðgerðapakka tvö, sem við ræðum hér, var talað um að setja 350 milljónir til fjölmiðla til að mæta Covid-faraldrinum. Svo þegar maður fer að rýna í blöðin, sér maður að það er ekki króna. Þá er sagt: Við ætlum að nota þessar gömlu 400 milljónir sem voru ákveðnar fyrir jól. Þetta gengur engan veginn, herra forseti. Til að bíta höfuðið af skömminni er þetta meira að segja lægri upphæð. Við vorum búin að ákveða 400 milljónir, nú eru þær orðnar 350, alla vega í aðgerðayfirlýsingunni. Meiri hlutinn fær tækifæri til að bregðast við þessu því að hér verður breytingartillaga í kvöld um að bæta í.

Við þurfum að gæta sérstaklega hagsmuna sveitarfélaganna. Þau sögðu í sinni umsögn að þau verði fyrir allt að 50 milljarða kr. tekjutapi. Það er lítið sem ekkert í tillögu meiri hlutans sem lýtur að þeim. Við þurfum að gæta sérstaklega að stöðu einstakra hópa, öryrkja, eldri borgara, leigjenda, námsmanna. Við höfum ítrekað bent á það, ekki síst hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, og varpað skýru ljósi á að það þarf ekki bara að hækka atvinnuleysisbæturnar heldur þarf líka að huga miklu betur að kvennastéttum í þessu landi. Við erum með átakið Allir vinna með virðisaukaskattinn. Þingið bætti meira að segja bifreiðaverkstæðum inn í það síðast. Af hverju getum við ekki bætt kvennastéttum, svokölluðum kvennavinnustöðum, inn í sama úrræði?

Við fengum umsagnir og fundargesti frá SÁÁ, Geðhjálp og Hugarafli og þetta voru allt aðilar sem töluðu við okkur í fjárlaganefndinni og kölluðu eftir auknum stuðningi.

Herra forseti. Að lokum er ýmislegt jákvætt í þessum fjárauka. Það eru álagsgreiðslur til framlínufólks, en við viljum láta þær ná til fleiri aðila. Af hverju er verið að skilja út undan hluta af starfsmönnum hjúkrunarheimila eða löggæslufólk? Aðrar jákvæðar aðgerðir hafa verið lagðar fram og sumar eru meira að segja þannig að við lögðum þær til fyrst við fyrri fjárauka, en stjórnarmeirihlutinn felldi það. Nú er það komið. Skiptir mig engu máli, þetta er bara skrýtinn sandkassaleikur.

Mig langar að lokum að segja að við þurfum að passa okkur á því þegar fram líða stundir og við þurfum að fara að borga skuldirnar okkar, sem við erum óneitanlega að fara í, (Forseti hringir.) þá megum við ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ná þeim skuldahala niður með því að skera niður í opinberri þjónustu. (Forseti hringir.) Þar hljótum við að geta staðið saman, hv. þingmenn í Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, (Forseti hringir.) og staðið í lappirnar varðandi niðurskurðarhníf Sjálfstæðisflokksins.