Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér fannst ég vera að hlusta á nákvæmlega sömu ræðuna hjá hv. þingmanni og hann flutti hér við fjárlagafrumvarpið í haust. Það þarf að gera meira hér og gera meira þar. En látum það liggja milli hluta.

Það sem truflaði mig í þessari ræðu, fyrir utan að hún var öll full af hálfsannleik og útúrsnúningum, er þessi sérkennilega fullyrðing um að Sjálfstæðismenn hafi einhverja andúð á ríkisstarfsmönnum. Hvaða uppfinning er það? Það er auðvitað þannig að samneyslan er mjög mikilvæg. Hún er mikilvæg stoð í samfélaginu, stór hluti af heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu og mjög mikilvæg. En hv. þingmaður verður að átta sig á því að til þess að við getum haft hér mikilvæga og almennilega samneyslu, þarf viðskiptaumhverfið að afla þess fjár. Þess vegna er auðvitað aðaláherslan á það núna að tryggja þær stoðir sem skapa þessi verðmæti. Það er ekki forgangsatriði núna við þessar aðstæður, sem við reiknum með að séu tímabundnar, að fara að fjölga hér sérstaklega sálfræðingum og kennurum o.s.frv. í nokkurra mánaða starf. Þetta er undarleg framsetning, undarleg forgangsröðun og allt tal um að það sé fjárfestingin sem þurfi að fara í, að fjölga einstökum starfsmönnum í einstökum stéttum.