150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum virka skilyrðislausar lausnir betur, alla vega svona að grunni til. Við Píratar höfum talað um þetta, t.d. varðandi skilyrðislausa grunnframfærslu, einmitt þar sem grunnurinn er tryggður. Þar fá þeir sem þurfa — og þeir sem þurfa kannski minna — ákveðin laun svo að vel gangi. Grunnurinn er tryggður, af því að við getum alltaf öll lent í vandræðum. Þó að okkur gangi vel núna þá er það ekki tryggt til framtíðarinnar.

Mig langaði þess vegna til að spyrja um ákveðna launatryggingu sem ég spurði hv. þm. Harald Benediktsson um áður. Við þingmenn erum núna samkvæmt lögum tryggðir í launum um að hækka samkvæmt launaþróun opinberra starfsmanna og ég held þetta sé ágætisfyrirkomulag. En að sjálfsögðu koma tímar þar sem svoleiðis hækkun er óviðeigandi, bara upp á ástandið núna t.d. Til samanburðar er einmitt annar hópur sem hefur það mjög slæmt. Þeir sem eru undir lífeyri almannatrygginga eru með mjög svipuð skilyrði til hækkana á sínum lífeyri, þ.e. hvort sem er hærra, launaþróun eða vísitala neysluverðs. Frá því að lögin voru sett hefur lífeyririnn alltaf verið hækkaður samkvæmt spá um launaþróun og neysluverð en það hefur nokkurn veginn alltaf verið vanmetið. Það hefur verið vanmetið um rúmlega 50% á þessum 22 árum, 30% síðan 2007 þegar síðustu stóru kerfisbreytingar voru gerðar. Mig bara langaði til þess að velta því upp með hv. þingmanni: Af hverju erum við (Forseti hringir.) ekki að gera þetta á nákvæmlega sama hátt fyrir þennan hóp sem hefur það sem verst og fyrir þingmenn, það (Forseti hringir.) munar þarna um 50%?