150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

atvinnuleysi meðal námsmanna.

[15:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Einmitt vegna þess að þetta er dýpra núna þá fórum við strax af stað í upphafi með það að markmiði að þrefalda og fjórfalda starfafjöldann sem var í efnahagshruninu. Við vissum ekki hvort sveitarfélögin myndu bregðast við með fleiri störf. Þau höfðu lagt það til í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að þau gætu skapað 1.000 störf. Þau voru síðan að koma með þrefalt fleiri störf og það er fagnaðarefni.

Við eigum ekki að gefast upp á því verkefni að skapa störfin og fjölga ekki enn meira á atvinnuleysisskrá. Við eigum ekki að gefast upp fyrir því verkefni að skapa þessi störf. Hins vegar verð ég fyrstur manna, ef það tekst ekki að skapa nægilegan fjölda starfa, til að tryggja það að netið grípi þessa einstaklinga. En við eigum að skapa störf. Við eigum ekki að gefast upp fyrir því áður en við leggjum af stað, eins og mér finnst hv. þingmaður vera að gera. Við erum þegar komin með 3.000 störf frá sveitarfélögunum. Það kemur frá opinberu stofnununum í vikunni. Við eigum að hvetja ungt fólk til virkni í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og fleiri aðila ef á þarf að halda og skapa fleiri störf og ekki gefast upp við það.